Kennarinn var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn barni sem honum var trúað fyrir til kennslu með því að hafa ítrekað á tímabilinu 19. desember 2017 til 11. maí 2018 í samskiptum við stúlku áreitt hana kynferðislega í gegnum Facebook.
Bæði var kennarinn sakaður um að hafa áreitt hana með kynferðislegum ummælum og sömuleiðis kynferðislegu myndefni. Með háttsemi sinni hafi hann sært blygðunarsemi stúlkunnar og sýnt henni ósiðlegt athæfi.
Jafnframt var kennarinn sakaður um að hafa brotið barnaverndarlög með því að hafa á tímabilinu 30. nóvember 2017 til 11. maí 2018 í samskiptum við stúlkuna sent henni skilaboð með ummælum, táknum og myndefni þar sem hæðst er að jaðarsettum hópum s.s. á grundvelli fötlunar, þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða og kynhneigðar. Þannig hafi hann sýnt henni ruddalegt og ósiðlegt athæfi.
Var litið til þess að kennarinn hefði ekki áður hlotið refsingu. Hann hefði þó haft yfirburðarstöðu gagnvart stúlkunni vegna stöðu og aldurs- og þroskamunar. Kennaranum, stúlkunni og vitnum bar öllum saman um að stúlkan hefði haft mjög lítið sjálfstraust þegar brotin hófust.
Samskipti þeirra bæru með sér að hann hefði nýtt sér það til að vingast við hana. Brotin hefðu náð yfir nokkurra mánaða tímabili og kennarinn ekki látið af háttseminni að eigin frumkvæði. Á hinn bógin leit héraðdómur til þess að tvö og hálft ár liðu frá því málið barst lögreglu þar til ákæra var gefin út.
Héraðsdómur ákvað að hæfileg refsing væri sex mánaða skilorðsbundið fangelsi auk þess sem kennarinn þarf að að greiða nemandanum 600 þúsund krónur í bætur. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu.