Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir fjármálaráðherra Þýskalands að viðvörunin sé varúðarráðstöfun.
Í kjölfar samstilltra refsiaðgerða gegn Rússlandi vegna innrásarstríðsins í Úkraínu kröfðust Rússar að „óvinaþjóðir“ sínar myndu greiða fyrir orku með rúblum og nefndu 31. mars í því samhengi ellegar myndu þeir „skrúfa fyrir gasið“ til Evrópu. Evrópusambandslöndin hafa hafnað þessari kröfu Rússanna og sagt það samningsbrot.
Eftir að viðbrögð frá ESB lágu fyrir hafa yfirvöld í Rússlandi mildað sína afstöðu og sagst sætta sig við að þeim verði greitt í rúblum smám saman.
Rússar sjá Þjóðverjum fyrir um helming gassins sem þeir nota og þriðjungi af olíunni. Þjóðverjar biðla nú til neytenda og fyrirtækja í landinu að draga verulega úr gasnotkun vegna mögulegs skorts sem kunni að verða ef deilurnar fara á versta veg.
Snemmbúin viðvörun er fyrsta viðbúnaðarstig af þremur í neyðaráætlun Þjóðverja.