Þær Margaux Chauvet og Susan Phonsongkham munu báðar leika með KR í sumar. Frá þessu er greint á KR.is.
Þær koma báðar frá Sydney í Ástalíu þó Margaux sé ættuð frá Frakklandi. Hún er öflugur varnarmaður sem getur spilað bæði sem miðvörður eða djúp á miðju samkvæmt frétt KR.is.
Hún lék síðast með Sydney Wanderers og stóð sig með prýði. Susan er sóknartengiliður og kemur frá Perth Glory.
Þær stefna á að tryggja sæti sitt í landsliði Ástralíu með góðri frammistöðu hér á landi.
„Við erum að sjálfsögðu full tilhlökkunar að taka þær inn í KR fjölskylduna og bjóðum þær velkomnar í vesturbæinn,“ segir að endingu í tilkynningu KR.