Sara er aftur komin í íslenska landsliðið eftir rúmlega árs fjarveru vegna barnsburðar. Hún eignaðist sitt fyrsta barn, soninn Ragnar Frank, um miðjan nóvember á síðasta ári.
Á blaðamannafundi landsliðsins í gær var Sara spurð að því hvort sonur hennar væri með í ferðinni.
„Venjulega væri hann velkominn í þessa ferð en pabbi hans fékk að vera með hann á meðan ég fór í ferðina,“ sagði Sara. „Hann er í góðum höndum í Rodez í Frakklandi með pabba sínum.“
Faðir Ragnars er Árni Vilhjálmsson, leikmaður Rodez í frönsku B-deildinni. Árni gekk í raðir liðsins frá Breiðabliki í janúar á þessu ári. Hann hefur leikið átta leiki með Rodez og skorað tvö mörk.
Sara byrjaði aftur að spila með Lyon, einu besta liði heims, í síðasta mánuði. Hún hefur komið við sögu í þremur leikjum með Lyon, tveimur í frönsku úrvalsdeildinni og einum í Meistaradeild Evrópu.
Íslenska landsliðið mætir því hvít-rússneska í Belgrad á morgun. Eftir hann halda íslensku stelpurnar svo til Tékklands þar sem þær mæta heimakonum í algjörum lykilleik í undankeppni HM 2023.
Ísland er í 2. sæti C-riðils undankeppninnar með níu stig eftir fjóra leiki. Tékkland er í 3. sætinu með fimm stig eftir fjóra leiki. Íslendingar unnu Tékka, 4-0, í fyrri leik liðanna á Laugardalsvelli. Liðin mættust svo aftur á SheBelieves Cup í Bandaríkjunum í febrúar. Þar vann Ísland 1-2 sigur.