Zelesnskyy Úkraínuforseti sagði í dag að hann ávarpaði öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fyrir hönd allra þeirra sem daglega syrgðu ástvini sína eftir stríðsglæpi Rússa sem væru þeir verstu frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Hann sýndi fulltrúum ráðsins myndir frá Bucha og Irpin þar sem hundruð kvenna, barna og karla voru limlest og myrt meðhrottafengnum hætti.

Forsetinn hvatti aðildarríki Sameinuðu þjóðanna til að afnema verði neitunarvald stórvelda í öryggisráðinu og draga alla þá sem framið hafi stríðsglæpi í Úkraínu fyrir alþjóðlegan stríðsglæpadómstól. Það ætti reka Rússa úr öryggisráðinu svo þeir gætu ekki stoppað ályktanir gegn eigin glæpum.
„Við höfum óhrekjandi sannanir. Við höfum gervihnattamyndir og getum rannsakað málið til hlítar. Við höfum áhuga á því. Við viljum fullan aðgang fréttamanna og starfa óhindrað með alþjóðastofnunum. Við viljum aðkomu alþjóðaglæpadómstólsins. Við viljum fá allan sannleikann upp á borðið og draga menn til ábyrgðar,“ sagði Zelenskyy í ávarpi sínu til öryggisráðsins í dag.

Vassily Nebenzia sendiherra Rússlands hjá Sameinuðu þjóðunum hélt því blákalt fram á fréttamannafundi í dag að undir hernámi Rússa hafi íbúar Bucha verið frjálsir ferða sinna og getað tekið myndir og sett á samfélagsmiðla. Hann þvaðraði áfram um nasistastjórn í Kænugarði sem hefði sviðsett fjöldamorðin til að kenna Rússum um voðavek Úkraínumanna.
„Hugsanlegt markmið þessarar ögrunar er hræðilegt og minnir á martraðir nasismans frá síðari heimstyrjöldinni,“ sagði sendiherrann.
Forseti Úkraínu hafi gefið í skyn þegar hann heimsótti Bucha að þessar fölsuðu aðstæður yrðu notaðar sem átylla.
„Með þessu staðfesti hann að stjórnin í Kænugarði telur þjóðarmorð vera aðferð í stríði. Nú hafa þjóðernissinnarnir fengið átyllu til að fremja fjöldamorð ásaklausum úkraínskum borgurum og aflífa þá sem svikara,“ sagði sendiherrann og bergmálar þar innihaldslausar fullyrðingar Putins til heimabrúks í sjónvarpsstöðvum sem allar eru undir hælnum á einræðisherranum.
Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins greindi frá nýjum refsiaðgerðum í dag. Öllum rússneskum skipum verður bannað að koma til hafnar í Evrópuríkjunum með örfáum undantekningum varðandi flutning nauðsynja og hjálpargagna, innflutningsbann sett á vörur allt frá timbri til lax og fleira.
„Við munum leggja bann við kolainnflutning frá Rússlandi að andvirði fjögurra milljarða evra á ári,“ sagði von der Leyen.