Fólkið mun verja tíu dögum í geimnum og þar af átta um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni. Þar munu ferðamennirnir lenda á laugardaginn, samkvæmt áætlunum.
Michael López-Alegría, fyrrverandi geimfari Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna (NASA) og núverandi geimfari Axiom Space, stýrir geimferðinni sem ber titilinn Ax-1. Með honum verða þeir Larry Connor, Eytan Stibbe og Mark Pathy.
![](https://www.visir.is/i/AC149C9AA790DA537DEA3C7464A92EF47AF0BA8D3657A44667E8AE74AA9128E8_713x0.jpg)
Samkvæmt frétt Space.com hefur veðrið í Flórída verið leiðinlegt síðustu daga en er búist við því að það muni skána í dag og vera orðið gott fyrir geimskotið.
Skotglugginn svokallaði opnast klukkan 15:17 í dag og má fylgjast með geimskotinu í beinni útsendingu í spilaranum hér að neðan.
Geimfararnir fjórir segjast hafa undirbúið sig mjög svo fyrir geimferðina og dvölina í geimstöðinni. Sá undirbúningur hafi meðal annars falist í því að æfa sig í að halda sér hreinum í geimnum og að fara á klósettið. Þeir hafi sömuleiðis æft neyðarviðbrögð og viðhald um borð í geimstöðinni.
Þá fara þeir með á þriðja tug vísindatilrauna til geimstöðvarinnar.