Rihanna þykir ein best klædda kona í heimi og hefur svo sannarlega ekki slegið slöku við í óléttuklæðnaðinum, þar sem hún skín af sjálfsöryggi og notar stórkostlegar samsetningar í fatavali sínu. Í viðtalinu segir hún meðal annars að það sé einfaldlega of skemmtilegt að klæða sig upp.
„Ég ætla ekki að láta þann hluta af lífi mínu hverfa þó að líkaminn minn sé að breytast,“ segir Rihanna. Vogue segir meðal annars að hún hafi endurskrifað tískureglurnar á meðgöngu sinni. Annie Leibovitz tók ljósmyndirnar en hún er einn þekktasti tískuljósmyndari okkar samtíma.
„Ég vona að við getum endurskilgreint hvað þykir viðeigandi fyrir óléttar konur. Líkaminn minn er að gera stórkostlega hluti um þessar mundir og ég ætla ekki að skammast mín fyrir það.
Þetta á að vera tími til að fagna. Af því af hverju ættir þú að fela óléttuna þína?“ segir þessi fyrirmynd og súperstjarna.
Í viðtalinu talar Rihanna um tísku, ástina, meðgönguna og athyglina ásamt því að gefa smá innsýn í hvort nýtt lag sé væntanlegt frá henni. Aðdáendur Rihönnu hafa beðið spenntir í mörg ár eftir nýju efni frá söngkonunni en í gegnum tíðina hefur hún sent frá sér ódauðleg lög á borð við We Found Love og Love On The Brain.
Rihanna og A$AP Rocky eiga bæði von á sínu fyrsta barni og samkvæmt Rihönnu gengur sambandið vel. Hún segir þau einfaldlega vera að gera sitt og beri virðingu hvort fyrir öðru. „Mér líður bara eins og ég geti tekist á við alla hluta lífsins með hann mér við hlið.“
