Innlent

Ás­dís Halla nýr ráðu­neytis­stjóri há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköpunar­ráðu­neytis

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ásdís Halla Bragadóttir hefur verið ráðin ráðuneytisstjóri háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins.
Ásdís Halla Bragadóttir hefur verið ráðin ráðuneytisstjóri háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins. STJR

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefr skipað Ásdísi Höllu Bragadóttur í embætti ráðuneytisstjóra. Alls sóttu átta um stöðuna, sem var auglýst 3. febrúar og rann umsóknarfrestur út 28. febrúar. 

Fram kemur í tilkynningu að hæfnisnefnd hafi metið tvo umsækjendur hæfasta til að gegna embættinu, ráðherra hafi í kjölfarið boðað þá til viðtals og var það mat ráðherra að Ásdís Halla væri hæfust umsækjenda. Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri efnahags- og fjármálaráðuneytis, annaðist skipunarferlið.

Ásdís Halla var í byrjun desember ráðin verkefnastjóri við undirbúning nýs vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins og í lok janúar tilkynnt að hún yrði tímabundin sett ráðuneytisstjóri. Umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu í byrjun mars að Áslaugu Örnu hafi verið óheimilt að setja Ásdísi Höllu sem ráðuneytisstjóra til þriggja mánaða án auglýsingar. 

Fram kemur í tilkynningunni að Ásdís Halla hafi lokið meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu í Harvard háskóla árið 2000 og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2008. Hún hafi lokið BA gráðu í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands árið 1990. 

Hún hafi þar að auki fjölþætta reynslu bæði úr stjórnsýslunni og atvinnulífinu. Hún hafi meðal annars verið bæjarstjóri í Garðabæ í um fimm ár, forstjóri Byko, aðstoðarmaður menntamálaráðherra, átt sæti í háskólaráði Háskólans á Bifröst og háskólaráði Kennaraháskólans og setið í stjórn Nova. 

Undanfarin ár hafi hún komið að stofnun og rekstri farsælla nýsköpunarfyrirtækja í heilbrigðis- og velferðarþjónustu ásamt því að sinna ritstörfum. Þá hafi hún víðtæka reynslu af stefnumótun og áætlanagerð bæði í störfum sínum hjá hinu opinbera og úr atvinnulífinu. Hún hafi mikla reynslu sem stjórnandi, hafi borið ábyrgð á fjölbreyttum rekstri og stýrt fjölda starfsmanna frá árinu 2000. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×