Fótbolti

Ekki misst af leik í sex ár: Spilað 224 leiki í röð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
224 leikir í röð. Geri aðrir betur.
224 leikir í röð. Geri aðrir betur. Manuel Queimadelos/Getty Images

Komið er rúmlega hálft ár síðan Iñaki Williams sló met spænsku úrvalsdeildarinnar yfir fjölda spilaðra leikja í röð. Hann heldur áfram að bæta metið með hverjum leiknum sem hann spilar fyrir Athletic Bilbao.

Hinn 27 ára gamli Williams býr yfir þeim ótrúlega eiginleika að vera alltaf klár í slaginn. Þá hefur hann ekki tekið út leikbann í fleiri ár. Williams hefur nú farið í gegnum sex ár án þess að missa af deildarleik með Bilbao.

Ekki nóg með að vera alltaf til taks þá stendur hann sig alltaf það vel að hann er aldrei skilinn eftir utan hóps eða látinn dúsa 90 mínútur á varamannabekk liðsins.

„Það er vert að taka fram að Williams er fljótasti leikmaðurinn í spænsku úrvalsdeildinni. Að leikmaður með slíkan sprengikraft sé aldrei meiddur er ótrúlegt,“ skrifar enski blaðamaðurinn Sid Lowe en hann fjallar um spænsku úrvalsdeildina fyrir The Guardian.

Athletic Bilbao er sem stendur í 8. sæti deildarinnar með 45 stig að loknum 32 leikjum, tíu stigum minna en Real Sociedad sem situr í síðasta Evrópusætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×