Fótbolti

Framherji nýkrýndu meistaranna á flótta undan bjórnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benjamin Sesko,  Maurits Kjaergaard og Brenden Aaronson fagna hér sigri FC Red Bull Salzburg um helgina.
Benjamin Sesko,  Maurits Kjaergaard og Brenden Aaronson fagna hér sigri FC Red Bull Salzburg um helgina. Getty/Simon Hofmann

Bandaríski landsliðsframherjinn Brenden Aaronson sneri aftur inn eftir hnémeiðsli um helgina og hjálpaði Red Bull Salzburg að tryggja sér austurríska meistaratitilinn með því að skora í stórsigri á Austria Vín.

Liðið frá Salzburg hefur verið yfirburðarlið í Austurríki undanfarin áratug en liðið var þarna að vinna sinn níunda meistaratitil í röð.

Aaronson hafði verið frá í sex vikur og var að spila sinn fyrsta leik síðan 13. mars. Hann meiddist í upphitun með bandaríska landsliðinu í síðasta landsliðsglugga.

Aaronson skoraði þarna sitt fjórða deildarmark en það voru tilþrif hans eftir leikinn sem vöktu líklega aðeins meiri athygli.

Eins og hefð er fyrir í þýskumælandi löndum þá fagna menn titlum með bjórsturtum en sá bandaríski gerði allt til að forðast sína.

Úr varð fyndið myndband þar sem sjá má liðsfélaga Aaronson elta þennan eldfljóta 21 árs gamla leikmann með bjórinn. Þeir Albert Vallci og Junior Chukwubuike Adamu sýndu seiglu og þolinmæði og náðu honum á endanum eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×