Sex efstu liðin í Olís-deildinni komust áfram í úrslitakeppnina og það þýðir að tvö efstu liðin, deildarmeistarar Fram og bikarmeistarar Vals, sitja hjá.
Leikir kvöldsins:
- 18.00 KA/Þór – Haukar (Stöð 2 Sport 4)
- 19.40 ÍBV – Stjarnan (Stöð 2 Sport 4)
- 21.10 Seinni bylgjan (Stöð 2 Sport 4)
Vinna þarf tvo leiki til að komast áfram í undanúrslitin. Stjarnan og ÍBV munu því mætast á laugardaginn í Garðabæ og Haukar mæta KA/Þór á sunnudaginn í Hafnarfirði. Komi til oddaleikja fara þeir fram næsta þriðjudagskvöld á sömu stöðum og í kvöld en ljóst er að búast má við hörkueinvígum.
Í undanúrslitunum leikur Fram gegn sigurliðinu úr einvígi ÍBV og Stjörnunnar en Valur mætir KA/Þór eða Haukum.
ÍBV með tak á Stjörnunni í vetur
Eyjakonur unnu báða leiki sína gegn Stjörnunni í vetur, allörugglega, eða 33-24 í Garðabæ og 29-24 í Eyjum.
Haukar og KA/Þór skiptust hins vegar á að vinna örugga heimasigra í sínum innbyrðis leikjum í vetur. Sara Odden skoraði átta mörk í 34-27 sigri Hauka á Ásvöllum en KA/Þór vann 34-26 á heimavelli þar sem Rakel Sara Elvarsdóttir var markahæst með átta mörk.
Þrettán úr landsliðinu sem lék um EM-sætið
Undanúrslitin hefjast föstudaginn 6. maí svo leikmenn Vals og Fram munu þá hafa beðið í rúmar þrjár vikur frá síðasta leik sínum, í lokaumferð Olís-deildarinnar 14. apríl.
Sjö þeirra, fjórar úr Fram og þrjár úr Val, voru þó í landsliðshópnum sem mætti Svíþjóð og Serbíu í undankeppni EM í síðustu viku. Þar voru einnig þrír leikmenn úr KA/Þór, tveir leikmenn úr ÍBV og einn úr Stjörnunni, auk þess sem Margrét Einarsdóttir úr Haukum var kölluð til fyrir leikinn við Serbíu en var þó utan hóps.
Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.