Fótbolti

Festi eyrnapinna í eyranu og getur ekki spilað um helgina

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mark Shelton getur ekki spilað um helgina eftir að hafa fest eyrnapinna í eyranu á sér.
Mark Shelton getur ekki spilað um helgina eftir að hafa fest eyrnapinna í eyranu á sér. Mark Fletcher/MI News/NurPhoto via Getty Images

Enska D-deildarliðið Hartlepool þarf að spjara sig án miðjumannsins Mark Shelton eftir að hann stakk eyrnapinna of langt inn í eyrað á sér.

Flestir knattspyrnuáhugamenn hafa heyrt sögur á borð við Santiago Canizares sem missti af HM 2002 eftir að hann missti rakspíraflösku á ristina á sér eða þegar skoski markvörðurinn Sam Henderson meiddist á öxl eftir að hafa lent í árekstri við kú.

Nú er hægt að bæta Mark Shelton á þennan lista yfir furðulegar ástæður þess að leikmenn missi af leikjum. Miðjumaðurinn getur ekki leikið með Hartlepool gegn Scunthorpe United á morgun vegna þess að hann stakk eyrnapinna of langt inn með þeim afleiðingum að pinninn festist.

„Mark setti eyrnapinna í eyrað á sér sem fór of langt,“ sagði stjóri Hartlepool, Graeme Lee, í samtali við BBC.

„Hann þurfti að fara upp á spítala og það hljómaði eins og flísatöngin hafi farið of langt inn. Nú finnur hann fyrir svima og getur ekki staðið,“ sagði Lee.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×