Fótbolti

Bað um frestun á inngöngu sinni í frægðarhöllina til að geta farið í meðferð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hope Solo spilaði alls 202 A-landsleiki fyrir Bandaríkin.
Hope Solo spilaði alls 202 A-landsleiki fyrir Bandaríkin. vísir/getty

Hope Solo, fyrrverandi markvörður bandaríska kvennalandsliðsins í fótbolta, hefur beðið um frestun á því að vera tekin inn í frægðarhöll fótboltafólks þar í landi þar sem hún er á leið í meðferð. 

Ekki er langt síðan hin fertuga Hope Solo var handtekin fyrir að keyra undir áhrifum áfengis. Samkvæmt fréttamiðlum ytra voru börnin hennar tvö, tveggja ára tvíburar, með henni í bílnum er hún var handtekin.

Í yfirlýsingu sem Hope sjálf birti á samfélagsmiðlum þá óskaði hún eftir því að inngöngu hennar í frægðarhöll bandaríska fótboltans yrði frestað en hún átti að hljóta inngöngu á þessu ári.

„Ég hef sett mig í samband við Frægðarhöllina og vinsamlegast beðið um að fresta inngöngu minni til ársins 2023. Ég hef sjálfviljug skráð mig í meðferð til að takast á við erfiðleika mína tengdum áfengi,“ segir í yfirlýsingu frá landsliðskonunni fyrrverandi.

„Á þessum tíma er öll mín orka og einbeiting á eigin heilsu og að sjá um fjölskyldu mína. Ég þakka Frægðarhöllinni fyrir stuðning þeirra og að skilja ákvörðun mína,“ bætti hún við.

Alls spilaði Hope Solo 202 leiki fyrir bandaríska landsliðið. Hún hélt hreinu í 102 þeirra og varð heimsmeistari sem og Ólympíumeistari tvívegis. Hún lagði hanskana á hilluna árið 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×