Leikskólagjöld fyrir átta klukkustunda vistun með fæði hafi hækkað hjá sautján sveitarfélögum af tuttugu. Fjórtán sveitarfélaga hækkuðu gjöld á bilinu 3 til 5,7 prósent. Þar af hafi gjöld hækkað umfram 4 prósent hjá átta sveitarfélögum. Mest hækkuðu almenn gjöld, fyrir átta tíma með fæði, hjá Ísafjarðarbæ eða um 5,7 en lækkuðu mest hjá Mosfellsbæ eða um 3,6 prósent.
Sömu gjöld fyrir einstæða foreldra hækkuðu einnig mest hjá Ísafjarðarbæ, um 6,7 prósent, en lækkuðu mest hjá Fjarðabyggð, eða um 3,5 prósent. Garðabær er með hæstu almennu leikskólagjöldin fyrir átta tíma vistun með ffæði og eru þau fimmtíu prósent hærri en lægstu gjöldin, sem eru hjá Reykjavíkurborg.
Á mánuði nemur munurinn á hæstu og lægstu gjöldunum 14.291 krónu og 142.910 krónum á ári, ef miðað er við tíu mánaða vistun. Leikskólagjöld fyrir einstæða foreldra eru aftur á móti hæst hjá Grindavíkurbæ og eru þau 120 prósent hærri en lægstu gjöldin hjá Reykjavíkurborg.
Fram kemur í úttektinni að leikskólagjöld hafi hækkað yfir 5 prósent í tveimur sveitarfélögum, á bilinu 4 til 5 prósent í sex sveitarfélögum og um 3 til 4 prósent í sex sveitarfélögum. Mest hafi þau hækkað hjá Ísafjarðarbæ eins og áður segir, um 5,7 prósent, sem rekja má til 12,9 prósenta hækkunar á fæðisgjöldum og 2,4 hækkun á tímagjaldi. Hækkunin nemur 2.219 krónum á mánuði eða 22.190 krónum á ári miðað við tíu mánaða vistun. Næst mest hækkuðu gjöldin hjá Grindavíkurbæ, eða um 5,2 prósent.
Gjöldin lækkuðu í tveimur sveitarfélögum, mest hjá Mosfellsbæ eða um 3,6 prósent og næst mest hjá Fjarðabyggð, eða um 2 prósent. Gjöldin stóðu í stað hjá Vestmannaeyjabæ milli ára.
Svipaðar breytingar má sjá á gjöldum fyrir átta tíma með fæði fyrir einstæða foreldra en þar vegur fæðiskostnaður þyngra og því er hækkunin á gjöldum fyrir forgangshópa hjá Ísafjarðarbæ meiri, eða 6,7 prósent. Að sama skapi lækka gjöldin fyrir einstæða foreldra meira en almenn gjöld hjá Fjarðabyggð eða um 3,5 prósent.
Tímagjald fyrir níunda tímann er öllu jafna hærra en tímagjald fyrstu átta tímanna. Mest hækkaði tímagjald fyrir níunda tímann hjá Grindavíkurbæ, eða um 5,6 prósent og næst mest hjá Suðurnesjabæ, eða um 5 prósent.
Mosfellsbær er eina sveitarfélagið sem lækkaði gjöld fyrir níunda tímann og nemur lækkunin fimm prósentum. Gjaldið stendur í stað hjá Vestmannaeyjabæ. Fyrir einstæða foreldra hækkaði gjald fyrir níunda tímann mest hjá Grindavíkurbæ, eða um 5,6 prósent og næst mest hjá Suðurnesjabæ eða um 5 prósent. Í Hafnarfirði lækkaði gjaldið fyrir einstæða foreldra mest, um 28 prósent eða 2.822 krónur á mánuði sem gerir 28.220 krónur á ári.