Þegar Ben Simmons gekk í raðir Nets þann 10. febrúar voru vonir um að hann myndi spila í úrslitakeppninni. Það gekk ekki eftir og Nets var sópað út af Boston Celtics.
Það hafa verið ýmsar vangaveltur varðandi af hverju Simmons hefur ekki spilað á leiktíðinni en hann hefur ekki spilað síðan 20. júní á síðasta ári. Andleg veikindi voru nefnd til sögunnar og þá var talið að hann væri einfaldlega að neyða Phildadelphia 76ers til þess að senda sig í annað félag.
Nú hefur verið staðfest að Simmons þurfi að fara í aðgerð á baki og verði frá þrjá til fjóra mánuði til viðbótar við þá sem hann hefur misst af til þessa. Hann verður í þrjár vikur að jafna sig eftir aðgerðina en mun eftir það geta hafið endurhæfingu.
Í yfirlýsingu Nets segir að félagið reikni með að Simmons verði klár þegar æfingar hefjast fyrir næsta tímabil. Brooklyn Nets vonast til að Ben Simmons heill heilsu sé síðasta púslið sem vanti til að hjálpa félaginu að berjast um titilinn en einnig ættu þeir Kevin Durant og Kyrie Irving að vera klárir frá fyrsta leik annað en í ár.
Ben Simmons medical update. pic.twitter.com/KXENQjZIg1
— Brooklyn Nets (@BrooklynNets) May 4, 2022
Reikna má einnig með að Nets vilji fá eitthvað út úr samningi sínum við Simmons en hann á eftir þrjú ár sem munu færa honum 114 milljónir Bandaríkjadala í laun.
NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.