Innherji

Frumtak setur 360 milljónir króna í 50skills

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Kristján Freyr Kristjánsson, framkvæmdastjóri og einn af stofnendum 50skills.
Kristján Freyr Kristjánsson, framkvæmdastjóri og einn af stofnendum 50skills. Aðsend

Hugbúnaðarfyrirtækið 50skills, sem sérhæfir sig á sviði ráðninga og virkjunar nýrra starfsmanna, hefur tryggt sér 360 milljóna króna fjármögnun frá Frumtaki III, sjö milljarða króna vísisjóði í stýringu Frumtaks. Fjármagnið verður nýtt til áframhaldandi þróunar á lausnum fyrirtækisins og til að byggja upp sölu- og markaðsstarf á Norðurlöndunum og í Bretlandi.

Kristján Freyr Kristjánsson, framkvæmdastjóri og einn af stofnendum 50skills, stýrði Icelandic Startups um nokkurra ára skeið þar sem hann komst í kynni við fjölda sprotafyrirtækja og var síðan ráðinn til fjártæknifyrirtækisins Meniga. Þar kviknaði hugmyndin á bak við 50skills.

„Meniga var á þessum tíma að stækka mjög hratt og þurfti að ráða marga starfsmenn á skömmum tíma. Ég kom meðal annars að því að útbúa alla ferla í kringum ráðningar,“ segir Kristján.

Hugbúnaðarlausn 50skills hjálpar vinnuveitendum að virkja nýtt starfsfólk á vinnustaðnum. Eftir ákvörðun um ráðningu er hægt að nýta lausnina til að straumlínulaga allar aðgerðir og verkþætti sem taka við þegar ráða á nýjan starfsmann.

Um leið og þú ert kominn með 100-300 manna fyrirtæki þá myndast þessi þörf til að einfalda verkferla í kringum ráðningar

„Þegar fyrirtæki hefur tekið ákvörðun um að ráða starfsmenn stendur það frammi fyrir miklum fjölda aðgerða. Það þarf að safna upplýsingum frá viðkomandi, til dæmis bankaupplýsingum eða staðfestingu á réttindum til að fljúga ákveðinni gerð af flugvél svo dæmi séu tekin. Auk þess þarf að stofna hann í innri kerfum, útbúa launasamning, og sjá til þess að starfsmaðurinn fái viðeigandi þjálfun,“ útskýrir Kristján.

Lausnin einfaldar til muna alla skjalagerð, undirritanir, þjálfunaráætlanir, launavinnslu og aðra ferla sem tengjast ráðningar- og mannauðsmálum.

„Fyrir stjórnendur, sérstaklega hjá stórum fyrirtækjum getur verið flókið að kunna allra verkferla, fá aðgang að öllum kerfum, og svo framvegis. Það er misjafnt eftir hverjum og einum vinnustað hvað þarf að gera til að virkja nýja starfsmenn en við höfum hannað lausn til þess að safna öllum upplýsingum sem þarf og nýta þær til þess að einfalda ferlið. Það er til mikils að vinna að óskilvirkir ferlar séu ekki að flækjast fyrir eins og raunin er víða í dag.“

Stofnendur og teymið á bak við 50skills. Aðsend

Þúsundir stjórnenda nota 50skills. Þar á meðal má nefna stjórnendur frá fimm af tíu stærstu fyrirtækjum á Íslandi, en á meðal viðskiptavina eru Icelandair, PLAY, Festi, Eimskip, Hagar, Samskip, Samkaup, Dominos, Icelandair Hotels, Seðlabanki Íslands, RÚV, Alvotech, CCP og sveitarfélög á borð við Reykjavíkurborg og Akureyrarbær.

Fyrirtækið velti um 100 milljónum króna í fyrra samanborið við tæpar 60 milljónir á árinu 2020. Þetta er fyrsta eiginlega fjármögnunarumferðin en hingað til hefur 50skills verið í eigu starfsmanna.

Kristján segir að það sé einkum þrennt sem knýr eftirspurn fyrirtækja eftir einfaldari leiðum til að virkja nýja starfmenn.

„Í fyrsta lagi er starfsmennavelta sífellt að aukast. Fólk sem var áður 5 til 10 ár á sama vinnustaðnum staldrar mun skemur við í dag. Við sjáum einnig að fólk er í auknum mæli að vinna á fleiri en einum vinnustað, til dæmis í skyndibitageiranum,“ segir Kristján. 

„Og í þriðja lagi nota fyrirtæki sífellt fleiri þjónustur, tól og tæki í starfseminni sem nauðsynlegt er fyrir nýtt starfsfólk að fá sem fyrst aðgang að og læra á. Um leið og þú ert kominn með 100-300 manna fyrirtæki þá myndast þessi þörf til að einfalda verkferla í kringum ráðningar og hún eykst bara eftir því sem starfsmönnum fjölgar.“

Eru sambærilegar lausnir til á þeim markaðssvæðum sem þið sækja á, þ.e.a.s. á Norðurlöndunum og í Bretlandi?

„Við erum að vissu leyti að ryðja brautina í þessum efnum með því að sérhæfa okkur í því að tengja saman forrit sem eru notuð til að virkja nýja starfsmenn.“

Vísisjóðir á vegum Frumtaks hafa fjárfest í 25 nýsköpunarfélögum frá árinu 2009. Svana Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Frumtaks, segir að 50skills falli vel að áherslum vísissjóðafélagsins. 

„Frumtak fjárfestir í fyrirtækjum sem þróa lausnir sem miða að því að nútímavæða mikilvæga rekstrarþætti í fjölbreyttum atvinnugreinum. 50skills leysir áskoranir sem mannauðsdeildir um allan heim standa frammi fyrir í tengslum við ráðningar og gerir þeim jafnframt kleift að vera í forystu þegar kemur að stafrænni þróun og utanumhaldi um fjarvinnu. Við hlökkum til vegferðarinnar með 50skills teyminu,“ segir Svana. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×