Framsóknarflokkurinn fór úr því að eiga engan fulltrúa í borgarstjórn í að verða þriðji stærsti flokkurinn í borginni með fjóra. Sigur flokksins ásamt sameiginlegu tapi Samfylkingarinnar og Viðreisnar á þremur borgarfulltrúum áttu stærstan þátt í falli meirihlutans í borginni. Hann fékk samanlagt tíu fulltrúa en tólf þarf að lágmarki til að mynda meirihluta í Reykjavík.

Í stjórnmálum þykir yfirleitt eftirsóknarvert að mynda meirihluta með sem fæstum flokkum. Raunhæfasti og nánast eini möguleikinn á myndun þriggja flokka meirihluta væri samstarf Samfylkingar, Framsóknar og Pírata með tólf fulltrúa.

Ef Framsóknarflokkurinn gengi til liðs við þá flokka sem misstu meirihlutann í gær hefði sá fimm flokka meirihluti 14 fulltrúa.

Meirihluti Samfylkingar, Framsóknar, Vinstri grænna og Sósíalistaflokksins hefði tólf fulltrúa. En Sósíalistar hafa þrengt stöðu sína með því að útiloka fyrirfram samstarf við bæði Sjálfstæðisflokk og Viðreisn og Píratar hafa útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn.
Samfylkingin, Framsókn, Píratar og Vinstri græn gætu myndað 13 manna meirihluta. Það gætu einnig Samfylkingin, Framsókn, Píratar og Viðreisn gert.

Ef síðan er horft til möguleika á meirihlutamyndunum með þátttöku Sjálfstæðisflokksins gætu Sjálfstæðisflokkurinn, Framsókn, Viðreisn og Flokkur fólksins myndað tólf manna meirihluta.

Það gætu Sjálfstæðisflokkurinn, Framsókn, Vinstri græn og Flokkur fólksins einnig gert. Sjálfstæðisflokkur, Framsókn, Viðreisn og Vinstri græn gætu sömuleiðis myndað tólf manna meirihluta.
Ólíklegasti meirihlutinn en þó pólitískt möglegur væri meirihluti Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Samfylkingar með fimmtán fulltrúa. Þar væri Framsóknarflokkurinn í því lykilhlutverki sem hann hélt gjarnan fram í kosningabaráttunni, það er að segja verið sá flokkur sem leiddi saman flokka frá hægri og vinstri í miðjustjórn.
Rétt fyrir kvöldfréttir Stöðvar 2 greindi Líf Magneudóttir oddviti Vinstri grænna frá því á Facebook-síðu sinni að hún og flokkur hennar muni ekki taka þátt í neinum viðræðum um myndun nýs m eirihluta í borginni.