Skoðun

100 þúsund kjós­endur sátu heima um helgina

Svavar Halldórsson skrifar

Nokkur umræða hefur verið um kjörsókn í sveitastjórnarkosningunum um helgina. Nú tóku 174.590 eða 63% atkvæðisbærra karla og kvenna þátt, en fyrir fjórum árum voru það 168.657 og hlutfallið 68%. Á sama tíma hefur þjóðinni fjölgað. Samkvæmt Hagstofunni voru 348.450 skráðir hér á landi 1. janúar 2018 en 376.248 þann 1. janúar 2022. Þetta er um 8% fjölgun.

Erlendum ríkisborgurum með kosningarétt fjölgaði mikið

Í nýafstöðnum sveitastjórnarkosningum voru 277.127 á kjörskrá. Árið 2018 höfðu 248.025 kosningarétt samkvæmt Þjóðskrá. Þetta er tæplega 12% prósenta fjölgun. Fjölgunin í hópi kjósenda er því meiri en sem nemur fjölgun þjóðarinnar. Hér munar miklu um nýlega breytingu á regluverki varðandi kosningarétt útlendinga. Árið 2018 höfðu 11.680 erlendir ríkisborgarar kosningarétt hér á landi í sveitastjórnarkosningunum. Nú var fjöldinn 31.703. Munurinn er 19.535 og því hefur erlendum ríkisborgurum með kosningarétt í sveitastjórnarkosningum hér fjölgað um 171%.

Íslenskir ríkisborgarar sitja heima

Samanlagt sátu 102.537 heima í þessum kosningum, sé miðað við að kjörsóknin hafi verið slétt 63% eins og fram hefur komið. Til samanburðar voru 100.405 á kjörskrá í Reykjavík. Fleiri sátu því heima á kjördag en sem nemur öllum kosningabærum mönnum og konum í höfuðborginni. Ekki eru til upplýsingar um það hversu hátt hlutfall erlendu ríkisborgaranna sat heima. Sumir þeirra kusu en aðrir ekki. En ef við gefum okkur að enginn þeirra erlendu ríkisborgara sem bættust við í hóp kosningabærra núna hafi kosið um liðna helgi, þá sátu að minnsta kosti 83.002 íslenskir ríkisborgarar heima. Þetta er eitthvað sem allt lýðræðislega þenkjandi fólk ætti að velta fyrir sér.

Höfundur er stjórnmála- og stjórnsýslufræðingur.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×