Glódís fór til Eskilstuna United frá Stjörnunni fyrir tímabilið 2015. Hún lék þar í tvö og hálft tímabil áður en hún samdi við Rosengård. Glódís lék með liðinu fram í júlí 2017 þegar hún gekk í raðir Bayern.
„Ég var ekki komin á endastöð en á stað þar sem ég var hætt að vera stressuð fyrir leiki, þekkti öll liðin alltof vel og mér fannst ég vera tilbúin í næsta skref,“ sagði Glódís þegar blaðamaður Vísis settist niður með henni í Prag í síðasta mánuði, fyrir leik Íslands og Tékklands í undankeppni HM.
„Mig langaði í nýja áskorun. Mér fannst þetta ekki vera áskorun lengur. Það voru kannski 2-3 leikir á ári sem mér fannst vera áskorun. Mér fannst ég klár í næsta skref og er ótrúlega ánægð með það.“
Vildi ekki fara bara eitthvað
Glódís er á því að hún hafi valið rétta tímann til að færa sig yfir í sterkari deild, þótt það hafi komið til greina að gera það fyrr.
„Auðvitað kom það nokkrum sinnum upp í hausinn að færa mig um set. Ég vildi samt ekki taka neina ákvörðun í flýti og fara bara eitthvað, af því bara,“ sagði Glódís.
„Ég fann bara þegar ég kom til baka í byrjun árs 2021 að mig langaði að prófa eitthvað annað. Svo sýndi Bayern áhuga snemma árs og þá small þetta. Við lentum líka á móti þeim í Meistaradeildinni. Mér leið eins og þetta hefði átt að gerast.“
En var stökkið frá Rosengård til Bayern stórt?
„Já og nei. Fótboltinn í Þýskalandi er öðruvísi en í Svíþjóð. Að því leitinu var þetta stórt stökk. Mér fannst ég vera í frábæru umhverfi í Rosengård en í Þýskalandi eru meiri einstaklingsgæði,“ sagði Glódís.
Meiri einstaklingshugsun
„Þar ertu með miklu fleiri betri einstaklinga. Upp á það að gera er þetta meiri áskorun. Þar er þetta meira einstaklingsmiðað á meðan það er meira hugsað um liðið og heildina í Svíþjóð. Í Þýskalandi er meiri einstaklingshugsun sem hefur reynt ótrúlega mikið á mig sem varnarmann. Ég fæ mikið út úr því að spila gegn frábærum leikmönnum sem eru góðir einn á einn, sem ég fékk ekki endilega í Svíþjóð.“
Glódís og stöllur hennar í Bayern enduðu í 2. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar í vetur, komust í undanúrslit bikarkeppninnar og átta liða úrslit Meistaradeildarinnar.