Körfubolti

Martin og félagar hófu úrslitakeppnina á naumu tapi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Martin Hermannsson í leik með Valencia.
Martin Hermannsson í leik með Valencia. Sonia Canada/Getty Images

Martin Hermannsson og félagar hans í Valencia þurftu að sætta sig við eins stigs tap, 79-80, er liðið tók á móti Baskonia í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum spænsku ACB-deildarinnar í körfubolta í kvöld.

Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og munurinn varð aldrei meiri en fimm stig í fyrsta leikhluta. Að honum loknum var staðan jöfn 21-21, en gestirnir í Baskonia reyndust sterkari það sem eftir lifði fyrri hálfleiksins. Gestirnir náðu átta stiga forskoti og staðan var 35-43 þegar gengið var til búningsherbergja.

Gestirnir héldu forskotinu stærstan hluta þriðja leikhluta, en Martin og félagar náðu þó að minnka muninn niður í fimm stig áður en komið var að lokaleikhlutanum. Heimamenn í Valencia voru sterkari aðilinn framan af í fjórða leikhluta og virtust ætla að stela sigrinum. Liðið komst í fjögurra stiga forskot í stöðunni 79-75, en gestirnir skoruðu seinustu fimm stig leiksins og unnu að lokum með minnsta mun, 79-80.

Martin kom lítið við sögu í leik kvöldsins og skilaði einu frákasti á rúmlega fjórum mínútum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×