Skólabygging Robb-grunskólans í hinni sextán þúsund íbúa bæ Uvalde í Texas var vettvangur martraðar þegar hinn átján ára gamli Salvador Ramos gekk þar inn vopnaður skotvopnum og hóf skothríð.
Þegar yfir lauk höfðu fjórtán nemendur í fyrsta til þriðja bekk týnt lífi, auk eins kennara. Lögregluyfirvöld í Uvalde segja að Ramos hafi verið einn að verki. Talið er að lögreglumenn á vettvangi hafi skotið hann til bana. Bandarískir fjölmiðlar hafa einnig greint frá því að Ramos hafi skotið ömmu sínu áður en hann lét til skarar skríða í skólanum. Hún er sögð liggja alvarlega særð á spítala.
Árásin ein sú mannskæðasta
Árásin fer ofarlega á blað yfir mannskæðustu skólaskotárásir í Bandaríkjunum, sem hafa verið tíðar á undanförnum árum. Þegar kemur að grunnskólum hafa aðeins tvær árásir verið mannskæðari. Í Sandy Hook skólanum árið 2012 þegar 27 létust, auk árásarmannsins og í Stoneman Douglas-skólanum í Flórída árið 2018 þegar átján létust.

Samkvæmt talningu CNN er þetta þrítugusta skotárásin í grunnskóla í Bandaríkjunum það sem af er ári.
Greg Abott, ríkisstjóri Texas, greindi frá atburðum dagsins á blaðamannafundi þar sem hann sagði skotárásina vera hryllilegan harmleik.
Viðbrögðin í Bandaríkjunum hafa ekki látið á sér standa. Þannig vakti ræða öldungadeildarþingmannsins Chris Murphy á gólfi öldungadeildar Bandaríkjaþings í kjölfar árásinnar mikla athygli. Þar spurði hann hvað í ósköpunum bandarískt samfélag væri að gera?
„Þetta gerist bara hér og hvergi annars staðar. Hvergi annars staðar fara lítil börn í skólann og hugsa að þau gæti týnt lífi þann daginn,“ sagði Murphy.
„Börnin okkar lifa í ótta í hvert einasta skipti sem þau ganga inn í skólastofu um að þau séu næst. Hvað erum við að gera?“
"Why are we here?" Sen. Murphy presses fellow senators in emotional speech after Texas elementary school shooting.
— MSNBC (@MSNBC) May 24, 2022
"I am here on this floor, to beg, to literally get down on my hands and knees and beg my colleagues ... find a way to pass laws that make this less likely." pic.twitter.com/ts4VnbTJRH
Hillary Clinton, fyrrverandi forsetafrú og forsetaframbjóðandi Demókrata, segir á Twitter að bænir og hlýir straumar dugi skammt.
„Árum saman höfum við ekki gert neitt. Við erum að verða þjóð angistaröskra“
Segir hún að þörf sé á þingmönnum sem séu tilbúnir til þess að leysa vandann sem tengist byssum í Bandaríkjunum.
Thoughts and prayers are not enough.
— Hillary Clinton (@HillaryClinton) May 24, 2022
After years of nothing else, we are becoming a nation of anguished screams.
We simply need legislators willing to stop the scourge of gun violence in America that is murdering our children.
Eftir mannskæðar skotárásir í skólum Bandaríkjunum undanfarin árhefur verið hávær krafa uppi um að herða aðgengi að skotvopnum í Bandaríkjunum. Tilraunir til þess hafa þó yfirleitt strandað á kjörnum fulltrúum Repúblikana í Bandaríkjunum.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, mun ávarpa bandarísku þjóðina í nótt að íslenskum tíma vegna árásarinnar.