Sífellt fleiri hungruð börn eru lögð inn á heilbrigðisstofnanir í landinu og fer staðan versnandi. Hjálparstofnanir sem fæddu milljónir íbúa og forðuðu landinu frá hungursneyð eftir valdatöku talibana eiga nú sífellt erfiðara með að halda í við þróunina.
Að sögn þeirra hefur fátækt stóraukist í landinu og fleiri Afganar nú hjálparþurfi á sama tíma og matvælaverð fer hækkandi á heimsvísu í kjölfar stríðsins í Úkraínu. Þá segir í nýlegri skýrslu að enn sé ekki búið að efna öll loforð um erlenda fjárhagsaðstoð.
Hafði ekki efni á því að koma börnunum undir læknishendur
Hin þrítuga Nazia segist hafa misst fjögur börn úr vannæringu, tvær dætur og tvo syni, öll undir tveggja ára aldri.
„Öll fjögur létust vegna fjárhagserfiðleika og fátæktar,“ segir Nazia í samtali við AP-fréttaveituna. Hún hafi ekki haft efni á því að koma þeim undir læknishendur þegar veikindin versnuðu. Nazia bætir við að eiginmaðurinn sé daglaunamaður og fíkill sem komi sjaldnast með nokkrar tekjur heim.
Fréttamaður AP hitti hana á Charakar-spítalanum í Parwan-héraði í norðurhluta landsins þar sem Nazia og sjö mánaða dóttir hennar þiggja læknismeðferð vegna næringarskorts. Líkt og margir Afganar ber Nazia einungis eitt nafn.

Valdatakan bætti gráu ofan á svart
Stöðug aukning hefur verið í fjölda barna undir fimm ára aldri sem lögð eru inn á heilbrigðisstofnanir með alvarlega vannæringu síðustu tvö ár. Þannig voru 16 þúsund slík tilfelli skráð í mars 2020, 18 þúsund í mars 2021 og 28 þúsund ári síðar, að sögn Mohamed Ag Ayoya, fulltrúa UNICEF Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna í Afganistan.
Fyrir valdatöku talibana í fyrra blasti fæðuskortur við Afganistan vegna langvarandi stríðsátaka og mestu þurrka sem íbúar hafa þurft að þola í áratugi.
Eftir valdatökuna hrundi síðan efnahagur landsins þegar alþjóðlegar refsiaðgerðir skáru á erlent fjárflæði til afganskra stjórnvalda og margar hjálparstofnanir hurfu frá landinu.