Guðmundur samdi við Álaborgar-liðið í febrúar á þessu ári um að leika með því út leiktíðina með möguleika á framlengingu. Félagið hefur nú ákveðið að leyfa þessum þrítuga leikmanni að leita á önnur mið í sumar. Alls lék hann sex leiki fyrir félagið.
„Guðmundur hefur spilað vel þegar hann hefur verið leikfær en hefur verið óheppinn með meiðsli. Hann hefur ekki náð að spila marga leiki í röð og það er ástæðan fyrir því að við ákváðum að framlengja ekki samning hans,“ sagði André Olsen, yfirmaður íþróttamála hjá AaB.
Olsen bætti svo við: „Það fer ekki á milli mála að Guðmundur er hæfileikaríkur leikmaður með marga góða eiginleika og við óskum honum alls hins besta í framtíðinni.“
Guðmundur hefur komið víða við á ferli sínum til þessa en hann hefur leikið í efstu deild í Danmörku, Noregi og Svíþjóð ásamt því leika í MLS-deildinni í Bandaríkjunum með New York City. Varð hann meistari með liðinu í desember 2021.
Þá á Guðmundur 12 A-landsleiki að baki sem og 32 leiki fyrir yngri landslið Íslands. Hann var ekki valinn í hóp A-landsliðsins fyrir komandi leiki gegn Ísrael, Albaníu og San Marinó.