Fótbolti

Fer aftur til Bologna eftir meiðsla­hrjáð tíma­bil í Kaup­manna­höfn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Andri Fannar í leik með íslenska A-landsliðinu.
Andri Fannar í leik með íslenska A-landsliðinu. Vísir/Vilhelm

Miðjumaðurinn Andri Fannar Baldursson stefnir á að berjast fyrir sæti sínu hjá ítalska úrvalsdeildarinliðinu Bologna.

Andri Fannar var í byrjunarliði U-21 árs landsliðs Íslands sem vann 9-0 sigur á Liechtenstein í undankeppni EM 2023 í gær, föstudag. 

Andri Fannar var á láni hjá FC Kaupmannahöfn á liðinni leiktíð og þó félagið hafi hampað danska meistaratitlinum þá var tímabilið gríðarleg vonbrigði fyrir Andra Fannar sjálfan.

„Ég var í miklu basli með meiðsli, ég var að æfa og spila meiddur. Ætlaði að koma mér í gegnum það þannig sem er aldrei gott,“ sagði Andri Fannar í viðtali við Fótbolti.net eftir stórsigur gærdagsins.

Andri Fannar meiddist ítrekað og komst aldrei í ryðma náði aldrei að sýna sínar bestu hliðar.

„Þetta gekk ekki eins og ég hafði vonast eftir. Svona er fótboltinn bara og það er bara áfram gekk. Fer aftur til Bologna og vonast til að standa mig vel, sjám til hvað gerist eftir það,“ sagði Andri Fannar að endingu.

Þó miðjumaðurinn sé ungur að árum fékk hann smjörþefinn af íslenska A-landsliðinu á síðasta ári. Hann á alls níu A-landsleiki að baki og vonast eflaust til að þeir verði fleiri eftir að hann nær sér alveg af meiðslinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×