Fótbolti

Liverpool nær samkomulagi við Núñez

Valur Páll Eiríksson skrifar
Nunez í baráttunni við Joel Matip í leik Liverpool og Benfica í Meistaradeildinni í vor. Fátt virðist koma í veg fyrir að þeir verði liðsfélagar á næstu dögum.
Nunez í baráttunni við Joel Matip í leik Liverpool og Benfica í Meistaradeildinni í vor. Fátt virðist koma í veg fyrir að þeir verði liðsfélagar á næstu dögum. Marc Atkins/Getty Images

Liverpool hefur samið við úrúgvæska framherjann Darwin Núñez um kaup og kjör og aðeins samkomulag um kaupverð stendur í vegi fyrir vistaskiptum hans frá Benfica í Portúgal til ensku bikarmeistaranna.

The Athletic greinir frá því að Liverpool hafi náð samkomulagi við Núñez. Greint var frá því í gær að Liverpool væri í viðræðum við Benfica um kaup á honum og virðist félagið hafa unnið hratt í samningamálum við leikmanninn sjálfan.

Búist er við því að hann muni kosta Liverpool allt að 100 milljónir evra, um 80 milljónir punda, og yrði hann þar með dýrasti leikmaður í sögu félagsins. Líklegt þykir að Liverpool greiði 80 milljónir evra fyrirfram og 20 milljónir geti fylgt í árangurstengdum greiðslum.

Núñez er sagður hafa samþykkt fimm ára samning með um sex milljónir evra í árslaun.

Jurgen Klopp, þjálfari Liverpool, er sagður vera mikill aðdáandi leikmannsins en hann skoraði 34 mörk í 41 leik fyrir Benfica á síðustu leiktíð, þar á meðal skoraði hann gegn Liverpool er liðin áttust við í Meistaradeild Evrópu. Klopp heillaðist víst mikið af þeim úrúgvæska í einvígi liðanna og Virgil van Dijk, miðvörður Liverpool, lét nýlega hafa eftir sér að Núñez væri á meðal öflugustu mótherja sem hann hefði mætt.

Líklegt þykir að Núñez fylli í skarð Sadio Mané hjá Liverpool en sá senegalski er líklega á leið til Bayern Munchen í Þýskalandi. Þau skipti hafa legið í loftinu um þónokkurn tíma en félögin eiga þar eftir að ná samkomulagi um kaupverð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×