Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar þar sem lesa má að umferð á hringveginum hafi aukist um tíu prósent í maí, umferðin hafi aldrei áður mælst jafn mikil í maí-mánuði.
Þannig var samanlögð meðalumferð á dag í maí 96.401 bíll, talið á sextán lykilteljurum víðs vegar um hringveginn. Fyrra met var sett í maí 2019, þegar meðal umferðin mældist 90.353 bílar á dag.

Vegagerðin segir að reikna megi með að heildarumferð áhringveginum í ár aukist um þrjú prósent.
Frá áramótum hefur umferðin nú aukist um 3,1 prósent sé hún borin saman við sama tímabil á síðasta ári.

Gangi þessar horfur eftir endar heildaraukningin í nýju umferðarmeti, eða svo til á pari við umferðina árið 2018 og rúmu einu prósenti yfir metárinu 2019.
Mest hefur umferð aukist um Austurland eða um 29,2 prósent. Umferð hefur dregist saman í kringum höfuðborgarsvæðið eða um 1,4 prósent frá áramótum miðað við sama tímabil á síðasta ári.
