Fótbolti

Fimm skiptingar leyfðar varanlega

Valur Páll Eiríksson skrifar
Leyfilegum skiptingum var fjölgað í þrjár árið 1995 en verða hér eftir fimm.
Leyfilegum skiptingum var fjölgað í þrjár árið 1995 en verða hér eftir fimm. Michael Regan - UEFA/UEFA via Getty Images

Alþjóðlega knattspyrnuráðið, IFAB, sem fer með yfirumsjón á reglum leiksins á heimsvísu samþykkti á ársfundi í dag að fimm skiptingar verði varanlegur hluti af fótbolta.

Leyft hafði verið tímabundið í maí 2020 að gera fimm skiptingar í stað þriggja í alþjóðafótbolta vegna rasks af völdum Covid-19 faraldursins. Spila þurfti þétt víða og fékkst heimild til að fjölga skiptingum til þess að dreifa álagi betur á leikmenn.

Flestar deildir, þar á meðal Besta deild karla, hafa viðhaldið reglum um fimm skiptingar en samkvæmt reglusetningu IFAB á sínum tíma var þessi tímabundna heimild til fleiri skiptinga að renna út.

IFAB samþykkti hins vegar í dag að öllum skipuleggjendum deilda sé heimilt til frambúðar að leyfa fimm skiptingar í stað þriggja. Einnig var samþykkt að fjölga skiptimönnum úr 12, sem var stærsti fjöldi leyfilegur fyrir daginn í dag, í 15.

Ítalska A-deildin er á meðal keppna þar sem 12 skiptimenn hafa verið leyfðir. Aðeins sjö eru þó víðast hvar, meðal annars á Englandi og Íslandi.

Enska úrvalsdeildin er á meðal sárafárra keppna þar sem aðeins mátti gera þrjár skiptingar á nýliðinni leiktíð en í línu við ákvörðun IFAB hafa forráðamenn deildarinnar ákveðið að fjölga aftur í fimm, líkt og var á Covid-tímanum.

Það var ekki fyrr en 1958 sem skiptingum var fyrst bætt við lög fótboltans sem tók þó sinn tíma fyrir knattspyrnusambönd á hverjum stað að taka upp. Frægt er dæmið af Gerry Byrne, varnarmanni Liverpool, sem lék 117 mínútur með brotið viðbein í úrslitaleik FA-bikarsins árið 1965, þar sem ekki mátti skipta manni inn í hans stað.

Þrjár skiptingar voru fyrst leyfðar árið 1995 en fyrir það voru tvær skiptingar heimilaðar auk einnar aukaskiptingar ef markvörður meiddist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×