Það styttist óðum í þinglok þetta vorið og eru ýmis stór mál á dagskrá þessa dagana en í dag voru miklar umræður um nýja fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Síðasta fjármálaáætlun var afgreidd í fyrra en frá þeim tíma hafa efnahagshorfur þó versnað og gerði ríkisstjórnin ýmsar tillögur að breytingum á áætluninni til að sporna gegn þenslu og verðbólgu.
Samanlagt ættu breytingarnar að skila ríkissjóði tæpum 26 milljörðum króna en meirihluti fjárlaganefndar afgreiddi tillöguna úr nefnd fyrir helgi og sat formaður nefndarinnar fyrir svörum í dag.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata og einn fulltrúi minnihluta nefndarinnar, gagnrýndi stjórnvöld harðlega í dag fyrir fálmkennda efnahagsstefnu og ómarkvissa áætlanagerð.
„Sú fjármálaáætlun sem við fjöllum um hérna er í besta falli efnahagslega og óábyrg. Það er algjör skortur á því hvernig á að koma til móts við helstu áskoranir í íslensku samfélagi, húsnæðisvandann, heilbrigðiskerfið, framtíð menntakerfisins, sameiginlegar auðlindir, loftslagsmál, almannatryggingar og fjármálaáætlun fjallað svo sem lauslega um nokkrar af þessum ástæðum að áskorunum en hvergi einmitt á þennan heildstæða og sannfærandi hátt út frá sjónarhóli þingsins og þjóðar að það sé skiljanlegt hvernig þessar áskoranir lagist á næstu árum,“ sagði Björn Leví.
Ekkert fjármagn í húsnæðisátak
Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, lýsti áhyggjum að kerfislægum halla á ríkissjóði í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Búið væri að taka um fjörutíu milljarða króna út úr ríkissjóði í formi skattalækkana á undanförnum árum. Þetta skapaði gríðarlega klemmu fyrir ríkissjóð.
Þannig væru þjónustusamningar við hjúkrunarheimili ekki fjármagnaðir í þessari fjármálaáætlun og hún stæði ekki undir grunnrekstri Landspítalans.
„Síðan er boðuð stórtæk uppbygging stjórnvalda í húsnæðismálum. Hún fær ekkert fjármagn í þessari fjármálaáætlun,“ sagði Kristrún.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Vinstri grænna, sagði ríkisstjórnina standa frmami fyrir vandasömu verki eftir tvö ár af kórónuveirufaraldrinum og vegna Úkraínustríðsins nú. Verðbólga fari hækkandi og stjórnvöld bregðist við bæði með aðhaldsaðgerðum og með því að auka tekjur.
„Við erum sannarlega bæði að reyna að bregðast við en líka að reyna að fylla upp í gatið sem meðal annars hefur skapast vegna þess að við höfum tapað mikið af bifreiðagjöldum. En við erum líka að leggja meira til,“ sagði hún.
Meirihlutinn í fjárlaganefnd hefði bent á að hægt væri að gera fleira en lagt er til í þessari fjármálaáætlun.