Luhansk-hérað hefur verið helsti vettvangur stríðsins í Úkraínu á undanförnum vikum. Aðskilnaðarsinnar, með stuðningi Rússa, vilja ná yfirráðum yfir svæðinu. Hafa Rússar lagt mikla áherslu á að taka lykilborgir á svæðinu.
Þar ber helst að nefna borgina Sievierodonetsk. Segir Gaidai að Rússar stjórni henni nú nær alfarið, fyrir utan efnaverksmiðju, þar sem almennir borgarar hafast við.
Reiknað er með stórsókn Rússa hefjist innan tíðar.
„Rússneski herinn hefur safnað nógu miklu liði til að hefja stórsókn,“ sagði Gaidai.
Rússar hafa á undanförum vikum eytt mestu púðri í stórskotaliðsárásir á það svæði í Donbas, sem samanstendur af Luhansk og Donetsk, sem enn er undir stjórn Úkraínumanna.
Volodímir Selenskí hefur sagt að búist sé við stórsókn Rússa í vikunni. Reiknað er með að það verði svar Rússa við leiðtogafundi leiðtoga ESB síðar í vikunni, þar sem fastlega er reiknað með því að mælt verði með því að Úkraína fái formlega stöðu umsóknarríkis.