Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgist með þróun mála í Úkraínu fram eftir degi.
Helstu vendingar:
- Leyniþjónusta Úkraínu hefur handtekið háttsettan stjórnmálamann og viðskiptamógúl vegna gruns um að hann starfi fyrir Rússa.
- Úkraínska varnarmálaráðuneytið segir Rússa hafa safnað öllum liðsafla sínum saman nærri borginni Sieverodonetsk. Hart er barist á svæðinu og Rússar sagðir stefna að því að ná mörkum Luhansk fyrir vikulok.
- Rússar eru æfareiðir þar sem lokað hefur verið á flutning vara um Litháen frá meginlandi Rússlands til Kalíngrad. Sendiherra Litháen í Moskvu hefur þegar verið kallaður á teppið og fregnir herma að sendiherra ESB hafi einnig verið boðaður á fund.
- Rússneskir embættismenn hafa sakað Úkraínumenn um að hafa gert árásir á þrjá gasborpalla suður af Odesa. Sjálfir segjast Úkraínumenn hafa notað vopn frá Vesturlöndum til að gera árásir á skotmörk á Svartahafi.
- Úkraínumenn segja Rússa hafa eyðilagt vöruhús í Odesa í gær, sem geymdi matvæli.
- Tyrkir segja viðræður við Svía og Finna um aðild síðarnefndu að Atlantshafsbandalaginu enn standa yfir. Þeir gera ekki ráð fyrir að niðurstaða fáist í þær fyrir ráðstefnu Nató í næsta mánuði.
