Messerschmidt hlaut sextíu prósent atkvæða í formannskosningum flokksins í janúar á þessu ári og yfirgáfu sex þingmenn flokkinn á fyrsta mánuði kjörtímabils hans. Boðað var til formannskjörs eftir að formaður flokksins til tíu ára, Kristian Thulesen Dahl, tilkynnti um afsögn sína.
Dahl sagði sig úr flokknum í dag en hann tók þátt í því að stofna flokkinn á sínum tíma ásamt að gegna hlutverki formanns. Hann tilkynnti sjálfur um þetta á Facebook-síðu sinni í dag.
Sálfræðilegt stríð hefur ríkt á milli Dahl og Messerschmidt síðustu vikur og að sögn Christine Cordsen, fréttaritara danska ríkissjónvarpsins á þinginu, fékk Dahl skýr skilaboð frá flokksmeðlimum að best væri að hann myndi yfirgefa þingflokkinn.
Það eru ekki einungis þingmenn flokksins sem hafa ákveðið að víkja en einnig starfsmenn flokksins, þar á meðal ritarar, aðstoðarmenn og fleiri. Nú standa einungis fimm þingmenn eftir, en í hópi þeirra er annar fyrrverandi formaður flokksins, Pia Kjærsgaard.
Talið er að einhverjir þeirra þingmanna sem hafa sagt sig úr Danska þjóðarflokknum muni ganga til liðs við Danmerkurdemókratana. Sá flokkur var stofnaður í síðustu viku af Inger Støjberg sem er fyrrverandi ráðherra innflytjendamála og varaformaður Venstre.
Fréttin hefur verið uppfærð.