Söngvarinn sem heitir réttu nafni Robert Sylvester Kelly var í september á síðasta ári sakfelldur fyrir brot sem lutu að fjárkúgun og mansali. Héraðsdómarinn Ann Donnelly kvað upp dóminn yfir Kelly í dag eftir að hafa heyrt frá hópi fórnarlamba söngvarans sem lýstu því hvernig misnotkun Kelly hefði haft áhrif á líf þeirra.

Donnelly sagði við dómsuppkvaðninguna að Kelly hafi notað kynlíf sem vopn, neytt fórnarlömb sín til ólýsanlegra athafna og gefið þeim ólæknanlega sjúkdóma.
„Þú lést mig gera hluti sem brutu mig. Ég bókstaflega óskaði þess að ég myndi deyja vegna þess hve smárri þú lést mér líða,“ sagði nafnlaust fórnarlamb við réttarhöldin.
Kelly sjálfur tjáði sig ekki við réttarhöldin.
Saksóknarar lögðu til að Kelly yrði dæmdur í 25 ára fangelsi í ljósi alvarlegra glæpa sinna og nauðsynjar þess að vernda almenning gegn frekari glæpum. Lögmenn Kelly færðu hins vegar rök fyrir því að hann ætti ekki að fá meira en tíu ára dóm af því hann hefði átt hræðilega æsku þar sem hann þurfti sem barn að þola langvarandi kynferðismisnotkun, fátækt og ofbeldi.