Fótbolti

Modric: Héldum að Mbappe myndi koma til Real Madrid

Árni Jóhannsson skrifar
Luka Modric hefur haft ærna ástæðu til að fagna undanfarin ár
Luka Modric hefur haft ærna ástæðu til að fagna undanfarin ár GETTY IMAGES

Luka Modric hélt að hann myndi fá rosalegan liðstyrk í sumar en eins og frægt er orðið þá voru líkur á því að Kylian Mbappe myndi ganga til liðs við Real Madrid þegar samningur hans við Paris St. Germain rann út. Mbappe hætti við að söðla um og samdi aftur við PSG til ársins 2025. 

Modric er óneitanlega svekktur með útkomuna en í viðtali við Sportske Novosti í heimalandi sínu Króatíu sagði hann að virða þyrfti ákvörðun Mbappe.

„Mbappe tók þá ákvörðun sem hann tók, það er hans réttur að taka ákvaðanir fyrir sjálfan sig og hann þarf að lifa með þeirri ákvörðun. Lífið heldur áfram.“

„Við héldum að hann myndi koma til okkar en það gerðist ekki. Hvað svo? Við þurfum ekk að krossfesta hann fyrir ákvörðun sína. Mbappe er frábær leikmaður en eins og ég segi aftur og aftur þá er enginn leikmaður mikilvægari er liðið. Real er besta lið í heimi og mikilvægari en hvaða leikmaður sem er og það verður alltaf svoleiðis.“

Modric vildi þó ekki alveg sleppa möguleikanum á því að Mbappe myndi ganga til liðs við Real Madrid í framtíðinni, jafnvel náinni framtíð.

„Hver veit hvað gerist á morgun hvað þá eftir þrjú eða fjögur ár?Aðeins tíminn mun leiða það í ljós.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×