Innlent

Fjór­falt fleiri flug­ferðum af­lýst

Árni Sæberg skrifar
Æ fleiri lenda í því að flugferðum þeirra er aflýst á síðustu stundu.
Æ fleiri lenda í því að flugferðum þeirra er aflýst á síðustu stundu. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Fjórfalt fleiri flugferðum frá Keflavíkurflugvelli var aflýst í júní en á sama tíma árið 2019.

Þetta kemur fram í samantekt Túrista. Þar segir að tæplega þrjú prósent flugferða frá Keflavíkurflugvelli í júní hafi verið felld niður með tveggja daga fyrirvara eða minni í júní

Icelandair trónir á toppnum með 62 aflýstar flugferðir en það skýrist aðallega af því að félagið er það langumsvifamesta á flugvellinum. Um er að ræða um tvö prósent af flugáætlun félagsins.

Hitt íslenska flugfélagið, Play, aflýsti sambærilegu hlutfalli flugáætlunar sinnar eða ellefu flugferðum.

Erlendu flugfélögin aflýstu meira hlutfallslega

SAS aflýsti flestum ferðum erlendu flugfélaganna eða 19 ferðum. Það eru um 17 prósent af íslandsflugáætlun félagsins en búast má við að hlutfallið verði enn hærra í júlí enda eru flugmenn félagsins í verkfalli.

Wizz Air og Easyjet aflýstu bæði sex flugferðum eða um sex prósent af áætlunum sínum.

Í frétt Túrista segir að auk þeirra flugferða sem aflýst var með stuttum fyrirvara í júni hafi verið ákveðið snemma árs að aflýsa miklum fjölda flugferða í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×