Það voru þingmenn flokksins sem kusu og fékk Sunak atkvæði frá 88 þeirra. Næst á eftir kom viðskiptaráðherrann Penny Mordaunt með 67 atkvæði en hún hefur verið talin sigurstranglegust hingað til.
Á eftir þeim komu Liz Truss með fimmtíu atkvæði, Kemi Badenoch með fjörutíu atkvæði, Tom Tugendhat með 37 atkvæði og Suella Braverman með 32 atkvæði.
Til að komast áfram í næstu umferð kosninganna þurfti að fá að minnsta kosti þrjátíu atkvæði og náðu tveir frambjóðendur ekki þeim fjölda, þeir Nadhim Zahawi með 25 atkvæði og Jeremy Hunt með átján atkvæði.
Næsta atkvæðagreiðsla fer fram á morgun en þá dettur sá út sem fær fæst atkvæði. Fleiri kosningar fara svo fram á næstu dögum þar til aðeins tveir standa eftir og verða þá haldnar kosningar milli þeirra tveggja þar sem allir meðlimir Íhaldsflokksins geta kosið.