Í fréttum Stöðvar 2 hittum við á bændur í heyskap á bænum Sléttu í Reyðarfirði, sem er skammt fyrir innan samnefnt kauptún. Á traktornum er Sigurður Baldursson að slá en hann tók við jörðinni fyrir hálfri öld.

„Það hefur gengið svona heldur treglega. Þurrkar hafa verið frekar stopulir. Aldrei komið nema svona einn og einn og hálfur dagur í einu,“ svarar Sigurður þegar við spyrjum um heyskapinn, sem hófst 4. júlí hjá þeim.
„Núna er búið að vera blautt og kalt. En síðustu tvö sumur voru náttúrlega bara eins og að vera á Spáni. Þannig að maður getur ekki fengið allt,“ svarar bóndadóttirin Þuríður Lillý Sigurðardóttir, sem jafnframt er bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð.
Þau segja sprettuna þó hafa verið góða en nú þurfti að setja kraft í heyskapinn því grasið sé að spretta úr sér.
„Því miður þá er þetta orðið svolítið skriðið og farið að harðna, stöngullinn. En maður verður bara að gera gott úr því,“ segir Þuríður.

Á þessum bæ eru að verða kynslóðaskipti. Þuríður og sambýlismaður hennar, Guðjón Már Jónsson, eru búin að reisa sér nýtt íbúðarhús. Hér er fimmhundruð kinda bú.
„Jú, við erum að fara að taka við búinu af foreldrum hennar,“ segir Guðjón Már, sem jafnframt starfar sem verkstjóri hjá VHE.
„Að taka við sauðfjárbúi eins og staðan er núna, það er ekkert hver sem er kannski sem leggur í það. En við erum stutt frá Reyðarfirði og við getum þá sótt okkur vinnu með þar, ef á reynir,“ segir Þuríður.

„Þegar ég var að taka við upp úr 1970 þá er búið hér á fimmtán jörðum. En ég hef lifað þá alla. Þannig að þetta er svolítið í hnotskurn sagan,“ segir Sigurður.
En hvernig líst eiginkonu hans, Dagbjörtu Briem Gísladóttur, á að láta búskapinn í hendur dótturinnar og tengdasonar?
„Bara vel. Er ekki gott að ungt fólk er að taka við í sveitum og að einhverjir vilji koma að þessu?“ svarar Dagbjört.
Sigurður segist þó svartsýnn á framtíð sauðfjárræktar.

„Þetta muni smám saman leggjast af sem atvinnugrein, svona á næstu tuttugu þrjátíu árum. Þá held ég að þetta verði að mestu búið, nema bara sem hobbí með einhverju öðru.
Það eru bara svo litlar tekjur í þessu. Þetta er mikill kostnaður og mikil fjárbinding.
Fjallskilin, þau eru mjög erfið þegar fækkar víða. Ég veit bara um menn sem eru að guggna núna vegna þessa,“ segir Sigurður.
Unga fólkið segist þó treysta á hjálp vina og vandamanna við smölun.
„Hjá okkur allavega, meðan fólk nennir að koma að smala með okkur og fyrir okkur þá erum við allavega í góðum málum,“ segir Þuríður Lillý.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: