Töluverður straumur ferðamanna frá heitari svæðum hefur verið til landsins í sumar. Þar má sérstaklega nefna portúgalska, spænska, franska, breska, þýska og ítalska ferðamenn samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu Play.
Þeir eru margir fegnir að komast í svalann á Íslandi.
„Þetta er fullkomið andsvar við hitanum í Evrópu. Já, þetta er dásamlegt. Fullkomið,“ segir Karen, sem kom hingað til lands frá Bretlandi í dag.
Hitinn náði rúmum fjörutíu gráðum í París í dag. Pierre, sem er frá Frakklandi, segist feginn því að hafa verið hér þegar hitinn var sem mestur í Frakklandi.
„Fjölmargir eldar loga sem skaða náttúruna,“ segir Pierre.
Eldar loga ekki aðeins í Frakklandi. Hin slóvensku Franz og Maja segja stöðuna hræðilega í ákveðnum hluta landsins.
„Okkur finnst frábært að koma hingað þar sem hitinn er lægri. Hitinn hér hentar okkur vel. Okkur líkar ekki hitasvækjan á sumrin í Evrópu.“
Marita og Peter frá Hollandi segja vini sína í heimalandinu vart hafa komist úr húsi síðustu daga.
„Vinir okkar hafa verið fasteir heima og ekki komist til vinnu. Í dag er ástandið verst. Hitinn er um 40 stig. Hitinn mun eitthvað lækka á morgun en ég er fegin að vera hér.“