Fótbolti

Andri Lucas frá Real Madrid í fyrsta sinn til Svíþjóðar

Sindri Sverrisson skrifar
Andri Lucas Guðjohnsen er kominn í búning Norrköping.
Andri Lucas Guðjohnsen er kominn í búning Norrköping. ifknorrkoping.se

Landsliðsframherjinn ungi Andri Lucas Guðjohnsen er genginn til liðs við sænska knattspyrnufélagið Norrköping og Ari Freyr Skúlason heldur þar með áfram að bjóða samlanda sína velkomna til félagsins.

Andri Lucas, sem er tvítugur, kemur til Norrköping frá Real Madrid en hann hefur búið á Spáni stærstan hluta ævinnar og æfði fyrst með Barcelona, þar sem Eiður Smári pabbi hans spilaði. Andri kom til Real Madrid árið 2018 og var leikmaður varaliðs félagsins en er nú mættur í sænska boltann eins og eldri bróðir hans, Sveinn Aron, sem leikur með Elfsborg.

„Ég hef aldrei spilað, eða yfirhöfuð dvalið, í Svíþjóð áður. Ég hlakka til að byrja og spila fyrir framan stuðningsmennina hérna,“ sagði Andri á heimasíðu Norrköping.

Sænska félagið birti skemmtilegt myndband á samfélagsmiðlum þar sem Ari Freyr Skúlason sést draga íslenska fánann að húni, rétt eins og þegar Arnór Sigurðsson sneri aftur til félagsins fyrr í sumar, og bjóða samlanda sína velkomna. Þeir Arnór og Andri eru saman í íslenska landsliðinu en Ari hefur lagt landsliðsskóna á hilluna.

Norrköping hefur átt erfitt uppdráttar að undanförnu og ekki unnið í síðustu sex deildarleikjum sínum. Næsti leikur liðsins er gegn IFK Gautaborg á mánudaginn. Norrköping situr í 11. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með 16 stig eftir 14 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×