Körfubolti

Þórsarar fá reynslumikinn Spánverja til Þorlákshafnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Josep Pérez mun leika með Þór Þorlákshöfn í vetur.
Josep Pérez mun leika með Þór Þorlákshöfn í vetur. Facebook/Þór Þorlákshöfn

Þór Þorlákshöfn hefur fengið spænska bakvörðinn Josep Pérez til liðs við sig fyrir komandi átök í Subway-deildinni og Evrópubikarkeppni karla í körfubolta.

Frá þessu er greint á samfélagsmiðlum Þórsara. Pérez er 29 ára og kemur frá Almansa Con Afanion í Leb Oro, spænsku B-deildinni þar sem hann hefur leikið undanfarin tvö tímabil.

Pérez hóf feril sinn hjá Barcelona, en hefur leikið stærstan hluta ferilsins í spænsku B-deildinni. Þá var hann einnig mikilvægur hluti yngri landsliða Spánar á sínum yngri árum, að því er kemur fram í tilkynningu Þórsara.

Þórsarar höfnuðu í öðru sæti Subway-deildar karla á seinasta tímabili áður en liðið féll út úr úrslitakeppninni gegn verðandi Íslandsmeisturum Vals. Þá fóru Þórsarar einnig alla leið í bikarúrslit þar sem liðið þurfti að sætta sig við tap gegn Stjörnunni.

Þórsarar eiga langt og strangt tímabil framundan, en ásamt því að leika í Subway-deildinni og bikarnum mun liðið taka þátt í Evrópubikarkeppni FIBA, EuroCup.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×