Daníel E. Arnarsson framkvæmdastjóri samtakanna staðfestir þetta í samtali við fréttastofu.
„Stjórn Samtakanna '78 hefur ákveðið að leggja fram kæru á hendur vararíkissaksóknara, Helga Magnúsar Gunnarssonar, vegna ummæla hans um hinsegin fólk sem leitar að alþjóðlegri vernd,“ segir í kærunni, sem fréttastofa hefur undir höndum. Hana má sjá í heild sinni neðst í fréttinni.
Ummælin lét Helgi falla á Facebook á fimmtudagskvöld í síðustu viku þegar hann deildi viðtali fréttastofu Vísis og Stöðvar 2 við lögmanninn Helga Þorsteinsson Silva, sem sagði frá því að stjórnvöld hafi sakað skjólstæðing hans um að ljúga til um kynhneigð sína og hafnað honum hæli. Héraðsdómur sneri ákvörðun Útlendingastofnunar við á þeim grundvelli að sannað taldist að maðurinn væri samkynhneigður.

Helgi Magnús skrifaði við deilinguna að „auðvitað ljúgi hælisleitendur.“ Þá spurði hann hvort einhver skortur væri á hommum á Íslandi. Helgi sagði jafnframt í samtali við fréttastofu í dag að hann hafi ekki verið að gera athugasemdir við málið sjálft heldur almennt. Þá þætti honum vænt um samkynhneigða og hefði aldrei haft neitt á móti þeim.
Ríkissaksóknari hefur ummæli Helga til skoðunar og Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagði í samtali við fréttastofu fyrir helgi að ummælin kæmu illa við sig.
