Gunnlaugur Viðar Viðarsson vekur athygli á grjóthruninu í færslu á Facebook-hópnum Jarðsöguvinir þar sem hann birtir myndir frá Gálgaklettum frá því í dag.

Í færslunni segist Gunnlaugur hafa hjólað upp að Gálgaklettum sem séu í Sundhnúk, rétt norðan við Grindavík og að þar hafi „stórt og mikið bjarg“ hrunið úr klettunum og lægi það „í miðri brekkunni.“

Þá segist Gunnlaugur í færslunni hafa gætt þess sérstaklega að vera langt frá klettunum ef eitthvað meira skyldi hrynja.
Neðar í þræðinum birtir hann svo mynd af grjóthnullungi sem hefur oltið niður fjallshlíð vestan við Þorbjörn.
Veðurstofa Íslands hefur einmitt varað fólk við því að fara of nálægt fjöllum og fjallshlíðum vegna hættu á grjóthruni og skriðum.
Stærsti skjálftinn á undanförnum árum
Mikil skjálftavirkni hefur verið á Reykjanesskaga frá því um hádegisbilið á laugardag og í gærkvöldi átti sér stað stór skjálfti að stærð 5,5 sem olli miklu tjóni í Grindavík.
Þar hrundu matvörur úr hillum verslana, myndir og speglar af veggjum á heimilum fólks og leirtau brotnaði um alla Grindavík. Auk þess rofnaði kaldavatnslögn inn í bæinn.
Þá funduðu bæjaryfirvöld Grindavíkur með lögreglunni á Suðurnesjum og Almannavörnum til að fara yfir stöðu mála og taka ákvarðanir um viðbúnað og viðbrögð en talið er að ný innskotavirkni sé hafin við ganginn sem myndaðist við eldgosið í Geldingadölum.