Fótbolti

Nígerískar landsliðskonur bíða enn eftir greiðslum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Nígeríska kvennalandsliðið berst enn fyrir því að fá greitt fyrir vinnu sína.
Nígeríska kvennalandsliðið berst enn fyrir því að fá greitt fyrir vinnu sína. Sebastian Gollnow/picture alliance via Getty Images

Nígeríska kvennalandsliðið í knattspyrnu hefur ekki enn fengið greitt frá knattspyrnusambandi Nígeríu, NFF, og íþróttamálaráðuneyti landsins fyrir þátttöku sína í Afríkumóti kvenna sem lauk fyrir tæpum tveimur vikum.

Deilur leikmanna liðsins við NFF og íþróttamálaráðuneytið hefur staðið yfir í nokkurn tíma. Leikmenn nígeríska liðsins gengu svo langt að fara í verkfall frá æfingum á meðan Afríkumótinu stóð.

Leikmenn liðsins eiga inni 10.000 dollara hver, sem samsvarar tæplega 1,4 milljónum króna. Meðal þess sem leikmennirnir áttu að fá greitt fyrir voru bónusar fyrir sigra sína á leið liðsins í undanúrslit Afríkumótsins.

Talsmenn NFF segja að leikmennirnir fá greitt á næstu dögum, en einn leikmaður liðsins segir þó að þær hafi fengið að heyra margar mismunandi lygar um greiðslurnar hingað til.

Ekki nýtt vandamál

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem leikmenn nígeríska kvennalandsliðsins í knattspyrnu fá ekki greitt fyrir vinnu sína. Nígería er sigursælasta kvennalandslið Afríku, en þrátt fyrir það hefur liðið ítrekað þurft að berjast fyrir launum sínum.

Í tvígang hefur nígeríska kvennalandsliðið tekið upp á því að loka sig inni á hóteli til að mótmæla ógreiddum launum. Í bæði skiptin var það einmitt á Afríkumóti kvenna.

Fyrra skiptið var árið 2004 eftir að liðið tryggði sér sigur á Afríkumótinu í Suður-Afríku og það seinna eftir að liðið tryggði sér sinn áttunda titil í Kamerún árið 2016.

Þá gerði liðið slíkt hið sama árið 2019 þegar leikmenn liðsins fengu ekki greitt fyrir þátttöku sína á HM í Frakklandi þar sem liðið féll úr leik í 16-liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×