Fótbolti

Frábær tölfræði Arnórs í fyrsta sigri Norrköping í tæpa þrjá mánuði

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arnór Sigurðsson átti frábæran leik í dag.
Arnór Sigurðsson átti frábæran leik í dag. IFK Norrköping

Landsliðsmaðurinn Arnór Sigurðsson var á skotskónum er Norrköping vann Degerfors í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Tölfræði Skagamannsins í leiknum var býsna góð en Norrköping hafði ekki unnið leik í háa herrans tíð.

Norrköping hefur ekki staðið undir væntingum það sem af er leiktíð en gengið hefur verið kaflaskipt. Eftir að hafa mistekist að vinna fyrstu fjóra leiki tímabilsins í deildinni unnust fjórir leikir í röð frá 26. apríl til 15. maí.

Síðan þá hefur Norrköping aftur á móti ekki unnið leik í níu tilraunum - allt þar til í dag þegar Degerfors kom í heimsókn.

Arnór Sigurðsson og Ari Freyr Skúlason byrjuðu báðir á miðju Norrköping en Andri Lucas Guðjohnsen spilaði síðasta korterið er liðið vann 2-0 sigur þar sem Arnór tryggði sigurinn með öðru marki liðsins í uppbótartíma.

Ef litið er á tölfræði Arnórs í leiknum er erfitt að segja að hann hafi ekki verið á meðal þeirra betri á vellinum.

92 prósent sendinga Arnórs hittu samherja í leiknum, þar af báðar fyrirgjafir hans, hann átti tvær lykilsendingar og skapaði eitt dauðafæri. Hann kláraði fimm af sex hlaupum sínum með boltann og fiskaði átta aukaspyrnur í leiknum.

Þegar litið er á varnarleik hans, komst hann þrisvar inn í sendingu andstæðings, komst fyrir eitt skot og vann 14 af 18 einvígjum sem hann fór í.

Arnór gekk í raðir liðsins frá CSKA Moskvu í sumar eftir misheppnaða lánsdvöl hjá Venezia í Feneyjum á síðustu leiktíð. Hann virðist nú vera á réttri leið í kunnuglegu umhverfi en hann lék áður með Norrköping frá 2017 til 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×