Íslenski boltinn

Blikar og Víkingar rökuðu inn milljónum í Evrópu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Víkingar fagna dramatísku jöfnunarmarki Danijels Djuric sem dugði þó skammt í gær.
Víkingar fagna dramatísku jöfnunarmarki Danijels Djuric sem dugði þó skammt í gær. EPA-EFE/Jakub Kaczmarczyk

Góður árangur Víkings og Breiðabliks í Evrópukeppnum í ár skilaði sér á bankabók félaganna. Víkingar sönkuðu að sér yfir milljón evra.

Víkingur hóf leik í forkeppni Meistaradeildarinnar sem leikin var í Víkinni og unnu bæði Levadia frá Eistlandi og Inter Escaldes frá Andorra. Við tók einvígi við Malmö í fyrstu umferð Meistaradeildarinnar sem tapaðist naumlega.

Víkingar færðust þá yfir í Sambandsdeildina hvar þeir unnu New Saints frá Wales og drógust þá gegn Lech Poznan frá Póllandi. Þar nam liðið staðar eftir 4-1 tap ytra í gær.

Þegar tekið er tillit til þeirra sigra og jafntefla sem Víkingar náðu á Evrópuvegferð sinni, auk þeirra umferða sem liðið tók þátt í, í hvorri keppni fyrir sig, náði félagið að vinna sér inn rúmlega 1,2 milljónir evra í verðlaunafé frá UEFA, rúmlega 170 milljónir íslenskra króna.

Ekkert þeirra liða sem féll úr úr Sambandsdeildinni í gær náði að vinna sér inn hærri upphæðir frá UEFA, en KÍ Klaksvík frá Færeyjum komst býsna nærri, með 1,1 milljón evra.

Breiðablik féll einnig úr keppni í gær, samanlagt 6-1 fyrir tyrkneska stórliðinu Istanbul Basaksehir. Blikar unnu þrjá leiki sína af sex í Sambandsdeildinni, tvo gegn Santa Coloma frá Andorra og einn af tveimur við Buducnost Podgorica frá Svartfjallalandi.

Með sínum árangri náðu Blikar í um 850 þúsund evrur frá UEFA, tæplega 120 milljónir króna.

Á meðal liða sem féllu út í gær og fengu minna í kassann en íslensku liðin eru Bröndby frá Danmörku og Lilleström frá Noregi, lið Hólmberts Arons Friðjónssonar, sem fengu bæði 750 þúsund evrur og Panathinaikos, lið Harðar Björgvins Magnússonar, sem fékk 650 þúsund evrur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×