Umfjöllun, viðtöl og myndir: Stjarnan - KA 2-4 | Takið okkur alvarlega Ingvi Þór Sæmundsson skrifar 21. ágúst 2022 21:45 Allt gekk upp hjá Nökkva Þey Þórissyni í Garðabænum, nema kannski þetta fagn. vísir/hulda margrét Nökkvi Þeyr Þórisson skoraði þrjú mörk og lagði upp eitt þegar KA vann 2-4 sigur á Stjörnunni í Garðabænum í 18. umferð Bestu deildar karla í kvöld. Með sigrinum minnkuðu KA-menn forskot Blika á toppi deildarinnar niður í þrjú stig. Breiðablik á þó leik til góða gegn Fram annað kvöld. Þetta var þriðji sigur KA í röð og sá fyrsti gegn liði í efri helmingi deildarinnar. Framundan eru erfiðir leikir hjá Akureyringum en þeir eru í toppmálum í 2. sæti deildarinnar og miðað við frammistöðuna og úrslitin í undanförnum leikjum er ekki annað hægt en að taka þá alvarlega í toppbaráttunni. Svo hjálpar að vera með heitasta leikmann deildarinnar í sínum röðum. Nökkvi stígur ekki inn á fótboltavöll þessa dagana án þess að skora eða leggja upp. Hann er markahæstur í Bestu deildinni með sextán mörk og hefur skorað 21 mark í deild og bikar í sumar. Þá veit á fyrir KA gott að Hallgrímur Mar Steingrímsson er allur að færast í aukana en hann skoraði í þriðja leiknum í röð í kvöld. Það mátti alveg taka ofan fyrir KA í kvöld.vísir/hulda margrét KA var sterkari aðilinn í leiknum og sýndi á sér ýmsar hliðar í honum. Þeir tóku fullan þátt í farsakenndum fyrri hálfleik þar sem sóknarleikurinn var í fyrirrúmi og voru hættulegir nánast í hvert einasta skipti sem þeir fóru fram fyrir miðju. Í seinni hálfleiknum fór KA svo í hlutverk sem þeim líður vel í. Akureyringar voru gríðarlega þéttir til baka og vörn þeirra, með Dusan Brkovic sem besta mann, steig ekki feilspor. KA-menn voru svo stórhættulegir í skyndisóknum og bættu einu marki við áður en yfir lauk. Jóhann Árni Gunnarsson skoraði bæði mörk Stjörnumanna úr vítaspyrnum en þær voru alls fjórar í kvöld. Stjarnan hefur tapað tveimur leikjum í röð eftir sigurinn frækna á Breiðabliki og fengið á sig samtals tíu mörk í þeim. Garðbæingar eru í 5. sæti deildarinnar. Tvö mörk Jóhanns Árna Gunnarssonar dugðu skammt fyrir Stjörnuna.vísir/hulda margrét Fyrri hálfleikurinn var fjörugur í meira lagi og innihélt fimm mörk og þrjú víti. Stjarnan byrjaði betur og komst yfir á 9. mínútu. Jóhann Árni skoraði þá úr víti sem dæmt var á Kristijan Jajalo fyrir brot á Emil Atlasyni. Eftir kröftuga byrjun Garðbæinga komust Akureyringar betur inn í leikinn og þeir jöfnuðu á 19. mínútu þegar Nökkvi skoraði eftir sendingu frá öðrum Dalvíkingi, Sveini Margeiri Haukssyni. Skömmu síðar átti Nökkvi hættulegt skot rétt framhjá. Nökkvi jafnar í 1-1.vísir/hulda margrét KA var talsvert sterkari aðilinn eftir jöfnunarmarkið og bankaði all hressilega á dyrnar hjá Stjörnunni. Og á 35. mínútu komust gestirnir yfir. Nökkvi stakk þá boltanum inn á Hallgrím sem skoraði úr þröngu færi. Liðin sóttu á víxl næstu mínútur og sköpuðu sér færi. Ísak Andri Sigurgeirsson átti flugskalla rétt framhjá marki KA og Haraldur Björnsson varði vel frá báðum bakvörðum KA, þeim Hrannari Birni Steingrímssyni og Þorra Mar Þórissyni. Lokamínútur fyrri hálfleiks voru svo farsakenndar. Jóhann Árni jafnaði í 2-2 á 40. mínútu þegar hann skoraði öðru sinni úr víti. Það var dæmt á Dusan Brkovic fyrir brot á Emil. Vilhjálmur Alvar Þórarinsson dæmdi fjórar vítaspyrnur.vísir/hulda margrét Gleði Garðbæinga var þó skammvinn því aðeins mínútu eftir jöfnunarmarkið fékk KA víti eftir að Haraldur braut á Elfari Árna Aðalsteinssyni. Nökkvi fór á punktinn og skoraði örugglega. KA leiddi í hálfleik, 2-3. Önnur mynd var á seinni hálfleiknum en þeim fyrri. Stjarnan þurfti að sækja en gerði það að frekar veikum mætti og Garðbæingar komust hvorki lönd né strönd gegn vörn Akureyringa. Elfar Árni Aðalsteinsson, fyrirliði KA, fiskaði tvær vítaspyrnur.vísir/hulda margrét KA-menn voru svo alltaf hættulegir í skyndisóknum. Þeir komust í dauðafæri á 61. mínútu en Daníel Hafsteinsson reyndi að skalla boltann á Nökkva í stað þess að skalla á markið. Það kom þó ekki að sök. Á 77. mínútu dæmdi Vilhjálmur Alvar Þórarinsson fjórða vítið í leiknum þegar Þórarinn Ingi Valdimarsson braut klaufalega á Elfari Árna. Nökkvi fór á punktinn, skoraði sitt þriðja mark og fjórða mark KA. Lokatölur 2-4, KA-mönnum í vil. Ágúst: Þurfum að stíga á bensíngjöfina og gera betur Ágúst Gylfason þarf að stoppa í götin í vörn Stjörnunnar.vísir/hulda margrét Ágúst Gylfason, þjálfari Stjörnunnar, sagði að sigur KA á hans mönnum í kvöld hafi verið sanngjarn. „Ég held það. Síðustu tveir leikir eru ekki boðlegir hvað varðar mörk á okkur. Við erum búnir að fá á okkur tíu mörk í síðustu tveimur leikjum og þú færð ekkert út úr því,“ sagði Ágúst eftir leik. „Við þurfum að sleikja sárin í kvöld og á morgun og fara yfir hlutina. Við eigum erfiðan leik í Eyjum um næstu helgi þannig við þurfum að klárlega að gera eitthvað.“ En hvað fannst Ágústi Stjarnan gera vitlaust í varnarleiknum í kvöld? „Fyrst og fremst slitnaði á milli og við gáfum þeim færi á að sækja hratt á okkur. Svo vorum við heilt yfir linir og fórum ekki almennilega í návígi. Það eru grunnatriði sem við þurfum að laga. Það ætti að vera auðvelt og er kannski spurning um hugarfar,“ svaraði Ágúst. Hann segir að Stjarnan megi ekki sofa á verðinum því annars gæti liðið misst af sæti í efri helmingi Bestu deildarinnar. „Klárlega. Við getum ekki horft á hin liðin í kringum okkur fá þrjú stig og sitja eftir. Það gengur ekki. Við þurfum að stíga á bensíngjöfina og gera betur,“ sagði Ágúst að lokum. Nökkvi: Aukaæfingin skilar sér á endanum Hallgrímur Mar og Rodrigo Mateo Gomes fagna með Nökkva.vísir/hulda margrét Nökkvi Þeyr Þórisson var eðlilega léttur í skapi eftir sigurinn á Stjörnunni. „Það var virkilega sætt að vinna. Þetta voru mjög mikilvæg þrjú stig. Við ætluðum okkur að koma hingað og vinna og tókst það. Frammistaðan í fyrri hálfleik var virkilega góð. Við lágum aðeins aftarlega í seinni hálfleik því við vorum með forystu en svo kom þetta fjórða mark og það drap leikinn. Ég er virkilega ánægður,“ sagði Nökkvi í leikslok. Dalvíkingurinn hefur farið hamförum að undanförnu og er markahæstur í Bestu deildinni með sextán mörk. Auk þess hefur hann skorað fimm mörk í Mjólkurbikarnum. „Bara aukaæfingin,“ sagði Nökkvi aðspurður hver lykilinn að góðri frammistöðu í síðustu leikjum væri. „Ég er búinn að segja þetta í hvert einasta skipti og þetta gildir ennþá. Gera smáatriðin rétt og aukaæfingin skilar sér á endanum.“ Nökkvi viðurkennir að hann sé fullur sjálfstrausts þessa dagana. „Ég er að spila á hvað mesta sjálftraustinu núna,“ sagði hann. Nökkvi segir að KA-menn ætli sér að taka þátt í toppbaráttunni af fullum þunga. Þeir eru nú aðeins þremur stigum frá toppi Bestu deildarinnar. „Eins langt og við getum. Það eru stórir leikir framundan og við viljum fara alla leið. Það er klárt mál,“ sagði Nökkvi að lokum. Besta deild karla Stjarnan KA
Nökkvi Þeyr Þórisson skoraði þrjú mörk og lagði upp eitt þegar KA vann 2-4 sigur á Stjörnunni í Garðabænum í 18. umferð Bestu deildar karla í kvöld. Með sigrinum minnkuðu KA-menn forskot Blika á toppi deildarinnar niður í þrjú stig. Breiðablik á þó leik til góða gegn Fram annað kvöld. Þetta var þriðji sigur KA í röð og sá fyrsti gegn liði í efri helmingi deildarinnar. Framundan eru erfiðir leikir hjá Akureyringum en þeir eru í toppmálum í 2. sæti deildarinnar og miðað við frammistöðuna og úrslitin í undanförnum leikjum er ekki annað hægt en að taka þá alvarlega í toppbaráttunni. Svo hjálpar að vera með heitasta leikmann deildarinnar í sínum röðum. Nökkvi stígur ekki inn á fótboltavöll þessa dagana án þess að skora eða leggja upp. Hann er markahæstur í Bestu deildinni með sextán mörk og hefur skorað 21 mark í deild og bikar í sumar. Þá veit á fyrir KA gott að Hallgrímur Mar Steingrímsson er allur að færast í aukana en hann skoraði í þriðja leiknum í röð í kvöld. Það mátti alveg taka ofan fyrir KA í kvöld.vísir/hulda margrét KA var sterkari aðilinn í leiknum og sýndi á sér ýmsar hliðar í honum. Þeir tóku fullan þátt í farsakenndum fyrri hálfleik þar sem sóknarleikurinn var í fyrirrúmi og voru hættulegir nánast í hvert einasta skipti sem þeir fóru fram fyrir miðju. Í seinni hálfleiknum fór KA svo í hlutverk sem þeim líður vel í. Akureyringar voru gríðarlega þéttir til baka og vörn þeirra, með Dusan Brkovic sem besta mann, steig ekki feilspor. KA-menn voru svo stórhættulegir í skyndisóknum og bættu einu marki við áður en yfir lauk. Jóhann Árni Gunnarsson skoraði bæði mörk Stjörnumanna úr vítaspyrnum en þær voru alls fjórar í kvöld. Stjarnan hefur tapað tveimur leikjum í röð eftir sigurinn frækna á Breiðabliki og fengið á sig samtals tíu mörk í þeim. Garðbæingar eru í 5. sæti deildarinnar. Tvö mörk Jóhanns Árna Gunnarssonar dugðu skammt fyrir Stjörnuna.vísir/hulda margrét Fyrri hálfleikurinn var fjörugur í meira lagi og innihélt fimm mörk og þrjú víti. Stjarnan byrjaði betur og komst yfir á 9. mínútu. Jóhann Árni skoraði þá úr víti sem dæmt var á Kristijan Jajalo fyrir brot á Emil Atlasyni. Eftir kröftuga byrjun Garðbæinga komust Akureyringar betur inn í leikinn og þeir jöfnuðu á 19. mínútu þegar Nökkvi skoraði eftir sendingu frá öðrum Dalvíkingi, Sveini Margeiri Haukssyni. Skömmu síðar átti Nökkvi hættulegt skot rétt framhjá. Nökkvi jafnar í 1-1.vísir/hulda margrét KA var talsvert sterkari aðilinn eftir jöfnunarmarkið og bankaði all hressilega á dyrnar hjá Stjörnunni. Og á 35. mínútu komust gestirnir yfir. Nökkvi stakk þá boltanum inn á Hallgrím sem skoraði úr þröngu færi. Liðin sóttu á víxl næstu mínútur og sköpuðu sér færi. Ísak Andri Sigurgeirsson átti flugskalla rétt framhjá marki KA og Haraldur Björnsson varði vel frá báðum bakvörðum KA, þeim Hrannari Birni Steingrímssyni og Þorra Mar Þórissyni. Lokamínútur fyrri hálfleiks voru svo farsakenndar. Jóhann Árni jafnaði í 2-2 á 40. mínútu þegar hann skoraði öðru sinni úr víti. Það var dæmt á Dusan Brkovic fyrir brot á Emil. Vilhjálmur Alvar Þórarinsson dæmdi fjórar vítaspyrnur.vísir/hulda margrét Gleði Garðbæinga var þó skammvinn því aðeins mínútu eftir jöfnunarmarkið fékk KA víti eftir að Haraldur braut á Elfari Árna Aðalsteinssyni. Nökkvi fór á punktinn og skoraði örugglega. KA leiddi í hálfleik, 2-3. Önnur mynd var á seinni hálfleiknum en þeim fyrri. Stjarnan þurfti að sækja en gerði það að frekar veikum mætti og Garðbæingar komust hvorki lönd né strönd gegn vörn Akureyringa. Elfar Árni Aðalsteinsson, fyrirliði KA, fiskaði tvær vítaspyrnur.vísir/hulda margrét KA-menn voru svo alltaf hættulegir í skyndisóknum. Þeir komust í dauðafæri á 61. mínútu en Daníel Hafsteinsson reyndi að skalla boltann á Nökkva í stað þess að skalla á markið. Það kom þó ekki að sök. Á 77. mínútu dæmdi Vilhjálmur Alvar Þórarinsson fjórða vítið í leiknum þegar Þórarinn Ingi Valdimarsson braut klaufalega á Elfari Árna. Nökkvi fór á punktinn, skoraði sitt þriðja mark og fjórða mark KA. Lokatölur 2-4, KA-mönnum í vil. Ágúst: Þurfum að stíga á bensíngjöfina og gera betur Ágúst Gylfason þarf að stoppa í götin í vörn Stjörnunnar.vísir/hulda margrét Ágúst Gylfason, þjálfari Stjörnunnar, sagði að sigur KA á hans mönnum í kvöld hafi verið sanngjarn. „Ég held það. Síðustu tveir leikir eru ekki boðlegir hvað varðar mörk á okkur. Við erum búnir að fá á okkur tíu mörk í síðustu tveimur leikjum og þú færð ekkert út úr því,“ sagði Ágúst eftir leik. „Við þurfum að sleikja sárin í kvöld og á morgun og fara yfir hlutina. Við eigum erfiðan leik í Eyjum um næstu helgi þannig við þurfum að klárlega að gera eitthvað.“ En hvað fannst Ágústi Stjarnan gera vitlaust í varnarleiknum í kvöld? „Fyrst og fremst slitnaði á milli og við gáfum þeim færi á að sækja hratt á okkur. Svo vorum við heilt yfir linir og fórum ekki almennilega í návígi. Það eru grunnatriði sem við þurfum að laga. Það ætti að vera auðvelt og er kannski spurning um hugarfar,“ svaraði Ágúst. Hann segir að Stjarnan megi ekki sofa á verðinum því annars gæti liðið misst af sæti í efri helmingi Bestu deildarinnar. „Klárlega. Við getum ekki horft á hin liðin í kringum okkur fá þrjú stig og sitja eftir. Það gengur ekki. Við þurfum að stíga á bensíngjöfina og gera betur,“ sagði Ágúst að lokum. Nökkvi: Aukaæfingin skilar sér á endanum Hallgrímur Mar og Rodrigo Mateo Gomes fagna með Nökkva.vísir/hulda margrét Nökkvi Þeyr Þórisson var eðlilega léttur í skapi eftir sigurinn á Stjörnunni. „Það var virkilega sætt að vinna. Þetta voru mjög mikilvæg þrjú stig. Við ætluðum okkur að koma hingað og vinna og tókst það. Frammistaðan í fyrri hálfleik var virkilega góð. Við lágum aðeins aftarlega í seinni hálfleik því við vorum með forystu en svo kom þetta fjórða mark og það drap leikinn. Ég er virkilega ánægður,“ sagði Nökkvi í leikslok. Dalvíkingurinn hefur farið hamförum að undanförnu og er markahæstur í Bestu deildinni með sextán mörk. Auk þess hefur hann skorað fimm mörk í Mjólkurbikarnum. „Bara aukaæfingin,“ sagði Nökkvi aðspurður hver lykilinn að góðri frammistöðu í síðustu leikjum væri. „Ég er búinn að segja þetta í hvert einasta skipti og þetta gildir ennþá. Gera smáatriðin rétt og aukaæfingin skilar sér á endanum.“ Nökkvi viðurkennir að hann sé fullur sjálfstrausts þessa dagana. „Ég er að spila á hvað mesta sjálftraustinu núna,“ sagði hann. Nökkvi segir að KA-menn ætli sér að taka þátt í toppbaráttunni af fullum þunga. Þeir eru nú aðeins þremur stigum frá toppi Bestu deildarinnar. „Eins langt og við getum. Það eru stórir leikir framundan og við viljum fara alla leið. Það er klárt mál,“ sagði Nökkvi að lokum.
Umfjöllun: Slóvenía - Ísland 18-23 | Himneskur Viktor og íslensk vörn í lykilsigri á HM Handbolti
Umfjöllun: Slóvenía - Ísland 18-23 | Himneskur Viktor og íslensk vörn í lykilsigri á HM Handbolti