Í samtali við RÚV sagði markaðsstjóri Orkunnar, Brynja Guðjónsdóttir að fyrirtækið hafi ekki fengið tilkynningar um skemmdarverk sem þessi áður og þetta sé leiðinleg upplifun.
Tótla segir ólíðandi að „það sé verið að skemma þessar táknmyndir sem er verið að setja upp að hinsegin fólk sé velkomið í rými, sé velkomið í borgina okkar og sé hluti af samfélaginu.“

Hún segir það eina sem sýni sig að virki til þess að vinna gegn hlutum sem þessum sé fræðslan en ekki sé nóg að fræðsla sé haldin í eitt skipti heldur að samtalið haldi áfram. Þetta sé hluti af lífi fólks alla daga.
„En svo er þetta líka bara spurning um normalíseríngu að þetta sé bara hluti af lífinu eins og hvað annað. Að þegar við erum að tala um fjölskyldur séum við að tala um allskonar fjölskyldur. […] Í stærðfræði geti verið dæmi um Nonna sem fór út í búð og keypti epli handa mömmum sínum,“ segir Tótla.
Hún segir ekki nóg að hinsegin málefni séu tekin fyrir einn dag á skólaárinu heldur allt árið um kring. Nauðsynlegt sé fyrir samfélagið að taka slaginn. „Ég trúi, vona og treysti að þetta sé tímabundið, að við sem samfélag tökum á þessu og svona verði ekki framtíðin,“ segir Tótla.
„Við þurfum að halda þessu á lofti, við þurfum að ræða saman og við þurfum að grípa þegar við verðum vitni af svona atvikum,“ segir Tótla.