Árásarmennirnir réðust inn á hótelið með miklum látum í gærkvöldi. Fyrst sprungu tvær bílasprengjur fyrir utan Hayat hótelið í Mogadishu áður en þeir fóru að skjóta fólk á færi. Sómalski hryðjuverkahópurinn al Shabaab hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni.
Reuters hefur eftir heimildamanni að flestir hinna látnu séu almennir borgarar. Óljóst er hversu margir eru í gíslingu inni á hótelinu en vegna þess hafa yfirvöld veigrað sér við að nota vopn til að vinna bug á árásarmönnunum.
Að sögn heimildarmannsins halda árásarmennirnir og gíslin til á annarri hæð hótelsins en árásarmennirnir hafi sprengt upp stigann, sem leiðir upp á aðra hæð, til að koma í veg fyrir að viðbragðsaðilar komist þangað upp.
Þetta er fyrsta stóra árásin sem gerð er af vígamönnum í Sómalíu eftir að Hassan Sheikh Mohamud tók við forsetastóli í maí.
Hryðjuverkahópurinn al Shabaab, sem segist bera ábyrgð á árásinni, hefur í áratug reynt að fella sómölsku ríkisstjórnina. Markmið hópsins er að innleiða lög byggð á strangri túlkun hans á boðorði spámannsins.
Hótelið sem gíslatökumennirnir réðust á er vinsælt meðal stjórnmálamanna og annarra embættismanna. Ekki er ljóst hvort einhverjir slíkir séu inni á hótelinu sem stendur.