Fótbolti

Þóttist skjóta stuðningsmenn mótherjanna

Sindri Sverrisson skrifar
Brasilíumaðurinn Yago beindi hornfánastönginni að stuðningsmönnum Vitoria.
Brasilíumaðurinn Yago beindi hornfánastönginni að stuðningsmönnum Vitoria. Skjáskot/Twitter

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Yago Cariello gerði allt brjálað þegar hann fagnaði sigurmarki sínu, í efstu deild Portúgals, með því að þykjast skjóta stuðningsmenn andstæðinga sinna.

Yago tryggði liði sínu Portimonense dísætan 2-1 sigur gegn Vitoria Guimaraes með því að skora á 88. mínútu.

Einhverra hluta vegna ákvað Yago að fagna markinu með því að ná í hornfánastöng og beina henni að stuðningsmönnum gestanna, og þykjast skjóta þá.

Eins og gefur að skilja urðu bæði stuðningsmenn Vitoria, sem og leikmenn liðsins, illir yfir þessu og hlutum var grýtt í átt að Brasilíumanninum. 

Yago virtist loks átta sig á heimskupörum sínum og lyfti höndum upp líkt og til að biðjast afsökunar. Hann fékk áminningu fyrir hegðun sína hjá dómara leiksins en slapp við rautt spjald.

Þetta var annað mark Yago á leiktíðinni en Portimonense er með sex stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar, rétt eins og Vitoria. Porto er á toppnum með fullt hús stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×