Sport

Manchester United leggur fram tilboð í Memphis Depay

Atli Arason skrifar
Memphis Depay í leik með Barcelona á síðasta ári. 
Memphis Depay í leik með Barcelona á síðasta ári.  EPA-EFE/Alejandro Garcia

Manchester United hefur gert Barcelona tilboð upp á 10 milljónir evra í von um að endurheimta þennan fyrrum framherja United aftur til liðsins.

Félagaskiptamarkaðurinn lokar næstkomandi fimmtudag en United þarf að styrkja framlínuna sína fyrir komandi tímabil. Anthony Martial er enn þá á meiðslalistanum og framtíð Cristiano Ronaldo er áfram óljós. Marcus Rashford hefur því leitt sóknarlínu Manchester United í síðustu leikjum.

Manchester United hefur verið að eltast við Antony, leikmann Ajax, en félögin tvö virðast ekki ná samkomulag um kaupverð á leikmanninum. Ajax hafnaði tæplega 90 milljón evra tilboði United í Antony í vikunni. 

Manchester United hefur nú óvænt ákveðið að snúa sér að Memphis Depay, framherja Barcelona. Það er fjölmiðlamaðurinn Gerard Romero sem greindi fyrst frá málinu en flestir fjölmiðlar Evrópu fjalla nú um þessi mögulegu félagaskipti.

Depay lék með United í tvö ár, frá 2015 til 2017. Depay þótti ekki standa sig nægilega vel hjá rauðu djöflunum sem varð til þess að United seldi hann til Lyon fyrir 16 milljónir evra, tveimur árum eftir að hafa keypt leikmanninn á 34 milljónir frá PSV. Depay skoraði sjö mörk í 53 leikjum fyrir Untited á sínum tíma.

Barcelona vill losna við Depay sem er ekki í áformum knattspyrnustjórans Xavi. Spænska félagið þarf að losa Depay af launaskrá sinni og talið er að tilboð upp á 10 milljónir evra sé nóg fyrir Barcelona til að selja. Real Sociedad er einnig sagt hafa áhuga á því að fá Depay til liðs við sig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×