Í samtali við fréttastofu staðfestir Gunnar B. Sigurgeirsson, aðstoðarforstjóri Ölgerðarinnar, að fyrstu dósirnar hafi verið sendar í verslanir í þessari viku. Aðspurður segir hann að fólk hafi reglulega óskað eftir því varan snúi aftur.
„Já, þessu er alltaf komið við og við til okkar og við beðin um að framleiða Mountain Dew í dósum. Við erum auðvitað búin að auka framleiðslumöguleikana hjá okkur með nýju verksmiðjunni okkar. Nú gátum við orðið við þessu,“ segir Gunnar. Fram að þessu hefur Ölgerðin ekki haft næga afkastagetu til að bæta vörunni við en með nýjum framleiðslutækjum getur fyrirtækið fjölgað vörum í vöruflóru sinni.
Aðdáendur Mountain Dew hafa líklegast flestir tekið eftir því síðustu mánuði að ekki hefur verið hægt að fá Mountain Dew úr gosvélum. Það gæti breyst á næstunni þó ekkert sé ákveðið.
„Það er aldrei að vita hvort það komi einhverjar nýjungar undir vörumerki Mountain Dew á næstu mánuðum,“ segir Gunnar.